Home / Fréttir / Rússar mótmæla nýrri varnarstefnu Breta vegna norðurslóða

Rússar mótmæla nýrri varnarstefnu Breta vegna norðurslóða

Gavin Williamson
Gavin Williamson

Breski varnarmálaráðherrann kynnti sunnudaginn 30. september varnarstefnu vegna norðurslóða. Þar er gert ráð fyrir að Norður-Íshafið og norðurslóðir verði miðlægur þáttur við gæslu öryggis Bretlands. Í samræmi við það ætla Bretar að auka viðveru sína þar á landi, sjó og í lofti. Daginn eftir að stefnan var kynnt mótmælti rússneska sendiráðið í London henni.

Í stefnunni felst að ár hvert munu 800 breskir landgönguliðar æfa í Noregi. Kafbátaleit Breta eykst með nýjum eftirlitsflugvélum. Breski kafbátaflotinn verður við æfingar í Norður-Íshafi. Fjórar orrustuþotur stunda loftrýmisgæslu í fyrsta sinn frá Íslandi á næsta ári.

Í ræðu á flokksþingi íhaldsmanna sunnudaginn 30. september sagði varnarmálaráðherrann að um þessar mundir sköpuðu Rússar „einna mestu hættu“ fyrir Bretar og einnig: „Við leyfum ekki Kremlverjum að endurrita niðurstöðu kalda stríðsins.“

Vegna stefnu og orða Williamsons sendi rússneska sendiráðið í London frá sér mótmæli gegn því að herafli yrði á norðurslóðum. Hvatti blaðafulltrúi sendiráðsins bresk yfirvöld til að leita fyrir sér á öðrum slóðum vildu þau í raun strykja stöðu Breta um heim allan.

Sendiráðið segir að engin rök séu fyrir áformum Breta um að styrkja hernaðarlega stöðu sína nálægt rússnesku landamærunum og það valdi aðeins ónauðsynlegri spennu. Sama eigi við um Rússa og aðrar heimskautaþjóðir að þær líti á þetta svæði sem vettvang skapandi samvinnu. Þar sé ekki að finna nein tilefni átaka og þau eigi ekki heldur að vera fyrir hendi.

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …