Home / Fréttir / Rússar mótmæla efirlaunabreytingum

Rússar mótmæla efirlaunabreytingum

Mótmælendur í Moskvu sunnudaginn 2. september.
Mótmælendur í Moskvu sunnudaginn 2. september.

Þúsundir manna um allt Rússland mótmæltu sunnudaginn 2. september fyrirhuguðum breytingum á eftirlaunaaldri í landinu þrátt fyrir að Vladimír Pútín forseti flytti á dögunum sjónvarpsávarp og mildaði tillögurnar.

„Við efnum í dag til mótmæla í öllu Rússlandi gegn þessum mannfjandsamlegu breytingum,“ sagði Gennadíj Zjuganov, leiðtogi rússneska kommúnistaflokksins í ræðu á fundi með nokkur þúsund mótmælendum sem komu saman í Moskvu 2. september.

Fréttir bárust af mótmælum víða um landið, þar á meðal St. Pétursborg, annarri stærstu borginni, Jekaterinburg í Úral-fjöllum, Novosibirsk í Síberíu og Kyrrhagshafnarborginni Vladivostok.

Rússneska þingið samþykkti í júlí áætlun ríkisstjórnarinnar um að hækka eftirlaunaaldur kvenna í 63 ár árið 2024 og karla í 65 ár árið 2028.

Vegna þessa hafa þúsundir manna efnt til mótmæla á götum úti undanfarnar vikur og vinsældir Pútíns minnkuðu umtalsvert í könnunum.

Til að slá á mótmælin flutti Pútín sjónvarpsávarp miðvikudaginn 29. ágúst og lofaði að milda áætlun ríkisstjórnarinnar. Hann lagði til að eftirlaunaaldur kvenna yrði hækkaður um fimm ár í 60 ár en ekki um átta ár eins fyrst var ákveðið. Hann vildi ekki breyta tillögunni um fimm ára hækkun fyrir karla.

Hann lagði einnig til að konur með minnst þrjú börn hefðu heimild til að fara fyrr á eftirlaun.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að lífaldur rússneskra karla sé 66 ár en kvenna 77 ár. Gagnýnendur breytingartillaganna hafa sagt að þær séu þess eðlis að margir muni ekki lifa nógu lengi til að njóta eftirlauna.

Vladimir Pútín var endurkjörinn forseti í mars 2018 og eru þessar deilur alvarlegasta vandamál hans á nýju kjörtímambili. Flokkur forsetans, Sameinað Rússland, sætir gagnrýni á spjöldum sem mótmælendur bera. Auk þess bera margir rauðan fána kommúnistaflokksins til að ögra Pútín og hans mönnum.

Kommúnistaflokknum er heimilað að efna til þessara aðgerða. Annað gildir um stjórnarandstæðinginn Aleksei Navalníj sem hvatti til fjöldamótmæla gegn eftirlaunabreytingunum sunnudaginn 9. september.

Navalníj var hins vegar tekinn fastur og dæmdur í 30 daga fangavist mánudaginn 27. ágúst. Dómurinn var vegna þess að hann hefði skipulagt ólöglegan útifund í Moskvu í janúar 2018.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …