Rússar mótmæla ákvörðun Norðmanna um bandaríska landgönguliða – efna til stærstu flotaæfinga í 10 ár

Skip úr rússneska Norðurflotanum.
Skip úr rússneska Norðurflotanum.

Yfirstjórn Norðurflota Rússlands, stærsta rússneska herflotans, sendi frá sér tilkynningu síðdegis miðvikudaginn 13. júní um að Norðurflotinn hefði hafið stærstu æfingu sína í 10 ár. Voru 36 herskip og fylgdarskip send frá höfnum á Kóla-skaga við austur landamæri Noregs út á Barentshaf til 10 daga æfinga. Um 20 herflugvélar voru jafnframt sendar á loft. Norsku herstjórninni var ekki gert formlega viðvart um að stofnað yrði til æfinganna.

Rússneski flotinn sendir tilkynningu þessa stóru æfingu daginn eftir að norska ríkisstjórnin samþykkti heimild til að fjölga bandarískum landgönguliðum í Noregi og dreifa þeim á fleiri staði en áður.

Rússneska sendiráðið í Osló segir að það veki „þungar áhyggjur“ að norska ríkisstjórnin hafi ákveðið að heimila fleiri bandaríska landgönguliða í Noregi, til lengri dvalar og víðar í landinu en áður.

Fyrr í vikunni samþykkti norska ríkisstjórnin að allt að 700 bandarískir landgönguliðar verði í tveimur herstöðvum í Noregi, í Værnes í Þrændalögum og Setermoen í Innri-Troms. Fyrstu landgönguliðarnar, 330, komu til Værnes í fyrra frá Bandaríkjunum. Hver hópur þeirra hefur dvalist sex mánuði í senn í Noregi.

Í færslu á Facebook segir rússneska sendiráðið meðal annars að þessi ákvörðun brjóti gegn stefnunni sem Norðmenn hafi mótað árið 1949 um að ekki „skuli opnaðar stöðvar fyrir herafla erlendra ríkja á norsku landsvæði“ nema Noregur verði fyrir árás eða hótun um árás.

Þegar ríkisstjórnin kynnti ákvörðun sína þriðjudaginn 12. júní sagði Ine Eriksen Søreide utanríkisráðherra að hún samræmdist herstöðvastefnu Noregs um æfingar og þjálfun í Noregi með bandamönnum Norðmanna.

Rússneska sendiráðið segir á hinn bóginn að í ákvörðuninni felist að –„fyrirsjáanleiki“ ákvarðana norskra stjórnvalda í öryggismálum minnki, þetta auki spennu, kalli á vígbúnaðarkapphlaup og grafi undan stöðugleika í Evrópu. Þá segir sendiráðið að aðgerðin sé „greinilega óvinsamleg“ og varar við að hún „dragi dilk á eftir sér“.

Sendiráðið segir að það veki „þungar áhyggjur“ að nú sé erlendur herafli í Værnes í Mið-Noregi, Rygge í Suður-Noregi (flugvöllur fyrir orrustuvélar) og Setermoen í Norður-Noregi.

Þá sé fráleitt að halda því fram að ekki sé um fasta viðveru hermannanna að ræða: „Þótt skipt sé um mannafla er viðveran varanleg (þetta eigi við um allar herstöðvar og til dæmis einnig sendiráð). Hermenn „æfi“ um landið allt, einnig í norðri. Ekki sé útlilokað að þeir verði sendir til annarra landa á svæðinu þar á meðal landa utan bandalaga,“ segir sendiráðið.

Þá kvartar rússneska sendiráðið undan því að stöðugt sé hvatt til aukinna hernaðarútgjalda í Noregi en í Rússlandi hafi þessi útgjöld dregist saman síðan 2017.

Sagt er að það sé „sérstakt áhyggjuefni“ að áætlunum sé hrundið í framkvæmd af stjórnvöldum í Osló án þess að efnt sé til efnislegra pólitískra tvíhliða viðræðna.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …