
RSK Mig framleiðandi MiG orrustuþotnanna hefur sent mótmælabréf til varnarmálanefndar búlgarska þingsins eftir að Nikolay Nenchev, varnarmálaráðherra Búlgaríu, og Tomasz Siemoniak, varnarmálaráðherra Póllands, rituðu undir viljayfirlýsingu um að flugvirkjar á vegum pólska ríkisins mundu gera upp sex MiG 29 þotur í eigu Búlgara.
RSK MiG segir að Pólverjar hafi ekki opinbera vottun sem þjónustuaðilar fyrir þotur fyrirtækisins. Bútgarski ráðherrann segir að tilboð Pólverja um endurgerð vélanna sé „tvisvar sinnum“ lægra en Rússa. Með því að semja við Pólverja muni Búlgarar spara 14 milljónir dollara.
Deilan vegna þessara viðskipta við Pólverja hefur leitt í ljós að meðal búlgaskra stjórnmálamanna er ágreiningur um hver skuli vera tengslin við Rússa við vopnakaup þrátt fyrir aðild landsins að NATO. Sumir vilja kaupa nýjar orrustuþotur af Rússum í stað þeirra sem eru að úreldast.
Miho Mihov, fyrrv, hershöfðingi, sem nú er formaður varnarmálanefndar búlgarska þingsins, vill rækta tengslin við Rússa og hafna tilboði Pólverjar. Mihov var á sínum tíma formaður herráðs Búlgaríu.
Ríkisstjórn Búlgaríu stefnir að því að hækka útgjöld til hermála i 2% af vergri landsframleiðslu árið 2024 úr 1,3% í ár.