Home / Fréttir / Rússar missa fjölda þyrlna og mistekst sóknaraðgerð

Rússar missa fjölda þyrlna og mistekst sóknaraðgerð

Úkraínskir hermenn við þjálfun í Donetsk-héraði.

Breska varnarmálaráðuneytið segir föstudaginn 20. október að í tveimur árásum á flugvelli við hernumdu bæina Luhansk og Berdjansk mánudaginn 17. október hafi Úkraínuher tekist að eyðileggja fjölda rússneskra herþyrlna.

Staðfestar upplýsingar um fjölda þyrlnanna liggja ekki fyrir en talið er að þær séu alls 14: níu á flugvellinum við Berdjansk og fimm við Luhansk.

Í frásögn breska varnarmálaráðuneytisins er fullyrt að þetta tjón hafi veruleg áhrif á stöðu Rússa á vígvellinum. Varnir þeirra veikist auk þess sem dragi úr sóknarþunga þeirra.

Úkraínumenn segja að þeir hafi notað langdræg ATACMS-flugskeyti frá Bandaríkjamönnum til árása á flugvellina. Er þetta í fyrsta sinn sem fréttir berast af notkun þessara vopna í átökunum.

Herfræðingar benda á að undanfarið hafi Rússar treyst meira en áður á stuðning frá þyrlum í hernaði sínum. Mat Breta er að sé þyrlutjón Rússa svona mikið aukist enn þrýstingur á Rússa og ekki síst flugmenn þeirra sem séu að öllum líkindum að þrotum komnir vegna átakanna.

Talið er að Rússum reynist erfitt að fylla það skarð sem varð með eyðileggingu á þyrlunum.

Herstjórn Úkraínu segir í frásögn sinni um gang stríðsátakanna að morgni föstudagsins 20. okróber að Rússar sæki enn á ný fram í austri, nálægt bænum Avdijvka í Donetsk-héraði. Þeir hafi ekki gefist upp við að ná bænum á sitt vald.

Herstjórnin segir hins vegar að Rússum hafi „mistekist“ framkvæmd áforma sinna og orðið fyrir óvenjulega miklu manntjóni.

„Undanfarna sólarhringa hafa tæplega 900 af mönnum andstæðingsins fallið eða særst, 50 skriðdrekar eyðilagst, um rúmlega 100 brynvarin farartæki eyðilagst eða skemmst,“ segir í tilkynningu herstjórnarinnar.

Bandarískir og breskir heimildarmenn staðfesta að sókn Rússa undanfarna daga hafi gengið illa og það sé „mjög ólíklegt“ að þeim takist nú að brjótast í gegnum raðir Úkraínuhers.

 

 

 

 

 

.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …