Home / Fréttir / Rússar misnotuðu Facebook í bandarísku kosningabaráttunni

Rússar misnotuðu Facebook í bandarísku kosningabaráttunni

images-29

Netárás Rússa á Bandaríkin í forsetakosningabaráttunni árið 2016 snerist ekki eingöngu um að brjótast inn í tölvur fólks og flokka og leka bréfum dermókrata eða um að dreifa fréttum, upplognum eða sönnum og einhverju þar á milli á rússneskum miðlum eins og RT og Sputnik til að gera Hillary Clinton lífið leitt. Minna fór fyrir notkun Rússa á Facebook og Twitter, bandarískum samfélagssíðum sem auðvelt var að misnota þótt erfitt sé að finna þá sem gerðu það. Víst er að síðunum var breytt í vettvang áróðurs og blekkinga segir The New York Times (NYT) föstudaginn 8. september.

Rannsókn á vegum blaðsins og netöryggisfyrirtækisins FireEye afhjúpar aðferðirnar sem Rússar hafa beitt á samfélagsmiðlunum til að sverta Hillary Clinton og dreifa efni sem þeir höfðu stolið. Miðvikudaginn 6. september skýrðu stjórnendur Facebook frá því að þeir hefðu lokað nokkur hundruð reikningum á síðunni sem þeir telja að megi rekja til rússnesks fyrirtækis í tengslum við rússneska ráðamenn í Kreml. Fyrirtækið hafi notað 100.000 dollara til að dreifa ögrandi efni í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum og að henni lokinni.

NYT segir að á Twitter og Facebook megi sjá rússnesks fingraför á hundruð eða þúsundum gervi-reikninga þar sem áróður gegn Hillary Clinton birtist reglulega.

Blaðið segir að mikil áhersla sé lögð á rannsaka starfsaðferðir Rússa til hlítar svo að unnt sé að hindra að þeir endurtaki leikinni í þingkosningunum árið 2018 eða forsetakosningunum árið 2020.

„Við vitum að við verðum að vera á verði til að standast þeim snúning sem reyna að misnota vettvang okkar,“ sagði Alex Stamos, aðalöryggisvörður Facebook, í færslu miðvikudaginn 6. september um falsanir Rússa. „Við teljum mikilvægt að vernda heiðarleika í opinberum umræðum.“

 

Bæði Twitter með 328 milljón notendur og Facebook með tæplega tvo milljarða manna sem notendur nota sérhönnuð tól og sérþjálfaða greinendur til að leita uppi grunsamlega reikninga. Þeir fara hins oft of varlega að mati gagnrýnenda af ótta við að draga úr umferð um síðurnar en fjöldi notenda er mælikvarði á hve vel fyrirtækjunum vegnar og ræður því miklu um verðmæti hlutabréfa í þeim. Bent er á að fyrirtækin láti oftast ekki til skarar skríða gegn reikningseiganda fyrr en að fenginni kvörtun eða ábendingu.

Hvað sem þessu líður er ekki unnt að segja að fyrirtækin sitji með hendur í skauti. Þau hafa hert sókn sína gegn gervi-reikningum, Hjá Facebook segja menn að þeir uppræti um milljón reikninga á dag – þar má meðal annars finna reikninga sem tengjast nýlegum kosningum í Frakklandi og komandi kosningum í Þýskalandi. Innan Facebook benda menn á að miðað við alla umferðina á síðum fyrirtækisins fyrir bandarísku kosningarnar hafi aðeins einn tíundi af einu prósenti einkennst af „upplýsinga aðgerðum“ að hætti Rússa.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …