Home / Fréttir / Rússar magna hótanir sínar og fjölþátta aðgerðir

Rússar magna hótanir sínar og fjölþátta aðgerðir

Skammdræg rússnesk kjarnaflaug – vígvallarvopn.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, sagði mánudaginn 6. maí að ekki væri lengur aðeins háð stríð í Úkraínu. Átökin þar breiddust nú út til annarra hluta Evrópu. Þau færðust einnig nær Danmörku. Það myndi birtast í fleiri fjölþátta árásum Rússa.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem danski forsætisráðherrann hélt með Petteri Orpo, forsætisráðherra Finnlands.

„Ég held að ýmsir Evrópubúar haldi enn að stríðið sé aðeins háð í Úkraínu. Um þessar mundir sjáum við sífellt fleiri merki um árásargirni Rússa. Við verðum vafalaust fyrir fjölþáttaárásum á ólíkum sviðum. Það kann að verða ráðist á mikilvæg grunnvirki,“ sagði danski forsætisráðherrann.

Petteri Orpo heimsækir Danmörku mánudaginn 6. maí og ræðir meðal annars við Mette Frederiksen um stuðninginn við Úkraínu, afhendingu skotfæra og loftvarnir auk viðbragða við komu farandfólks til Evrópu.

Hótanir Medvedevs

Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði á dögunum að til greina kæmi að senda hermenn undir merkjum NATO til Úkraínu.

Vegna þeirra orða hefur Dmitrij Medvedev, fyrrv. forseti Rússlands og núv. varaformaður rússneska öryggisráðsins, sent frá sér viðvörun.

Hann segir að sendi vestrið herafla til Úkraínu þýði það stríð við Rússland sem leiða muni til hörmunga fyrir heiminn allan.

„Sendi þeir herafla til landsvæða sem áður voru hluti Úkraínu jafngildir það beinni þátttöku þeirra í stríðinu. Við neyðumst til að bregðast við þessu. Og því miður utan svæða sem áður voru hluti Úkraínu,“ skrifar Medvedev á Telegram-samfélagssíðuna.

Hann segir að í þetta skipti dugi það vestrænum leiðtogum ekki „að fela sig á Capitol-hæðinni, í Élysée-höllinni eða í Downing-stræti 10“. Með þessum orðum hótar hann leiðtogum Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands.

Medvedev klykkir út með að segja að „hnattrænar hamfarir verði“ sendi vestrið hermenn til Úkraínu.

Rússar boða kjarnavopnaæfingu

Rússnesk stjórnvöld hafa boðað æfingu með vígvallar-kjarnavopnum, það er með „litlum“ kjarnahleðslum sem notaðar yrðu í návígi á vígvellinum. Dmitrij Peskov, talsmaður Kremlverja, segir að með æfingunni sé brugðist við ýmsum ummælum Emmanuels Macrons Frakklandsforseta.

Macron segir að það kunni að koma til álita að senda herlið undir merkjum NATO til Úkraínu.

„Þarna kemur fram algjörlega nýtt þrep stigmögnunar. Þetta er fordæmalaust,“ sagði Peskov mánudaginn 5. maí um orð Macrons. Þá segir hann að rússneska varnarmálaráðuneytið kanni nú sannleiksgildi frétta um að Frakkar hafi nú þegar sent hermenn til Úkraínu.

„Við neyðumst til að kanna hvort þessar upplýsingar séu réttar. Herstjórn okkar kannar það,“ er haft eftir Peskov af rússnesku fréttastofunni TASS.

Fyrir nokkru var upplýst að fáeinir breskir hermenn væru í Úkraínu. Það hefur þó ekki verið opinberlega staðfest.

TASS segir að á næstunni verði efnt til mikillar rússneskrar heræfingar. Dagsetningar séu enn óljósar. Varnarmálaráðuneytið segir að Vladimir Pútin forseti hafi gefið fyrirmæli um æfinguna.

Á sérfræðimáli er talað um „taktísk“ og „strategísk“ kjarnavopn, vígvallar og langdræg vopn. Taktísku vopnin eru notuð á vígvellinum eða við afmarkaða hernaðaraðgerð. Strategískum kjarnavopnum er ætlað að eyðileggja stór landsvæði og valda gífurlegu mannfalli.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …