Home / Fréttir / Rússar loka á norska norðurslóða-vefsíðu

Rússar loka á norska norðurslóða-vefsíðu

barentsobserver-nevalyashka-as

Hér á síðunni er oft vitnað til norsku vefsíðunnar Barents Observer sem fylgist náið með því sem gerist á norðurslóðum og ekki síst í Rússlandi. Síðan er traust og mikils metin heimild þeirra sem hafa til dæmis áhuga á her- og flotavæðingu Rússa á Kóla-skaga eða á siglingum um Norðurleiðina, það er á milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir norðan Rússland.

Barents Observer (BO) birtir efni á ensku og rússnesku en þriðjudaginn 19. febrúar skýrði ritstjórn hennar frá því að lokað hefði verið á dreifingu rússnesku útgáfunnar í Rússlandi.

Á síðunni er vitnað í rússneska þingmanninn Vitalíj Milonov sem sagði um BO „Lokið þessu blaði og sendið það til fjandans.“ Hann segir að blaðið sé til marks um „úrkynjun og hnignun“ og að „hugmyndafræði þess skírskoti til fólks með brenglað sálarlíf“.

Milonov, sem situr í utanríkismálanefnd Dúmunnar, neðri deildar rússneska þingsins, vill ekki aðeins loka á BO í Rússlandi. Hann vill einnig að gripið sé til pólitískra gagnaðgerða.

„Við verðum að senda þeim mótmæli, kalla á sendiherra Noregs og segja: Það sem þið eruð að gera getur haft áhrif á samskipti okkar, ef þið haldið áfram að framleiða svona efni fyrir Rússa á rússnesku.“

Rússnesk yfirvöld hafa farið að óskum Milonovs og stuðningsmanna hans. Frá þriðjudeginum 19. febrúar hefur ekki verið unnt að nálgast BO í Rússlandi eftir venjulegum leiðum á netinu. Áhugamenn geta farið krókaleiðir hafi þeir til þess búnað.

Lokunina má rekja til þess að rússneska fjölmiðlaeftirlitið, Roskomnadzor, sendi BO viðvörun 28. janúar þess efnis að frétt á síðunni um Dan Eriksson, samkynhneigðan Sama frá Norður-Svíþjóð, bryti í bága við rússnesk lög. Var BO veittur 24 tíma frestur til að fjarlægja fréttina af rússnesku útgáfu síðunnar.

Fréttin birtist upphaflega í sænska blaðinu Arjeplognytt. Þar segir frá erfiðri lífsgöngu Erikssons um árabil og að hann hafi tvisvar reynt að fyrirfara sér vegna fordóma í garð kynhneigðar sinnar. Hann hefur nú náð sér á strik, lifir hamingjusömu lífi og sinnir geðrænni aðstoð við unga samkynhneigða Svía.

Roskomnadzor segir að frétt sem ýtir undir sjálfsvíg sé andstæð rússneskum fjölmiðlalögum. BO fór ekki að kröfu eftirlitsins og má nálgast fréttina á enskri og rússneskri útgáfu vefsíðunnar.

Eftir að Roskomnadzor sendi BO viðvörun hófust árásir á síðuna í ýmsum harðlínu, rússneskum fjölmiðlum. Þar hefur Alríkis-fréttastofan verið í fremstu röð. Hún er undir handarjaðri Jevgeníjs Prigozhins, umdeilds rússnesks forstjóra sem talinn er vinur Vladimirs Pútins.

Alríkis-fréttastofan og útibú hennar eiga uppruna í sama heimilisfangi og svonefnd nettröllasmiðja í St. Pétursborg. Af nettröllasmiðjunni sem komið hefur við sögu í rannsókn Roberts Muellers, sérstaks saksóknara í Washington, hafi sprottið fjölmiðlasmiðja.

Talið er að Prigozhin hafi einnig tengsl við svonefndan Wagner-hóp, hálf-sjálfstæðan hóp vopnaðra málaliða sem hefur látið að sér kveða með vafasömum aðgerðum á alþjóðlegum átakasvæðum.

Í tengslum við þetta mál hefur Vitalíj Milonov hvatt til þess að rússneskum fjölmiðlum verði sérstaklega beint að Norðurlöndunum. Það verði að svara útbreiðslu ósiðseminnar með því að herða sókn rússneskra hugsjóna á Vesturlöndum. Það sé ekki nóg að gert í því efni á Norðurlöndunum. Sérstaklega eigi að beita Sputnik-fréttastofunni í því skyni.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …