Home / Fréttir / Rússar litu á Finna í NATO sem óvini, segir Finnlandsforseti

Rússar litu á Finna í NATO sem óvini, segir Finnlandsforseti

niinisto%cc%88-frankfurter-allgemeine-zeitung

Sauli Niinistö Finnlandsforseti tekur á móti Frank-Walter Steinmeier, forseta Þýskalands, í þriggja daga opinbera heimsókn í Helsinki mánudaginn 17. september. Af því tilefni sat Niinistö fyrir svörum hjá blaðamanni þýska blaðsins Frankfurter Allgemeine Zeitung föstudaginn 14. september.

Blaðamaðurinn spurði um fund Donalds Trumps Bandaríkjaforseta og Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í Helsinki í júlí.

„Þegar maður hittir Pútín er gott að fara mjög varlega. Hann er alltaf vel undirbúinn, einstaklega vel,“ sagði Niinistö.

Blaðamaðurinn spurði um tvíhliða samskipti Finna og Rússa með hliðsjón af löngum, sameiginlegum landamærum landanna:

„Við breytum ekki landafræðinni. Við erum nágrannar og eigum 1.300 km löng sameiginleg landamæri.“

Hann sagði nauðsynlegt að landamærasamstarfið virkaði milli landanna tveggja. Hann velti fyrir sér hvort Angela Merkel Þýskalandskanslari hefði hitt Pútín oftar en hann sjálfur.

„Það fer ágætlega á með okkur. Við getum rætt málin mjög opinskátt, jafnvel mjög viðkvæm mál,“ sagði Niinistö. „Værum við í NATO litu þeir á okkur sem óvini.“

Þegar blaðamaðurinn spurði hvort þeir Pútín ræddu umræður Finna sín á meðal um NATO-aðild sagði Niinistö að Finnar ættu þann kost að ganga í NATO en þeir mundu ekki óska eftir aðild á þessu stigi.

„Rússar hafa tekið af skarið um það að nú líti þeir yfir landamærin til okkar og sjái Finna. Værum við í NATO mundu þeir sjá óvini. Það er afstaða þeirra.“

Niinistö svaraði einnig spurningum um þá skoðun Donalds Trumps að Evrópa væri keppninautur Bandaríkjanna, meira að segja jafnvel óvinveittur.

„Þetta er í fyrsta sinn síðan í seinni heimsstyrjöldinni sem við verðum að íhuga svo alvarleg vandamál í samskiptum ríkjanna beggja vegna Atlantshafs. Ávallt hefur legið ljóst fyrir að þetta eru dýrmæt samskipti. Trump hefur breytt þessu,“ sagði Niinistö.

Um samstarfið innan ESB sagði forsetinn að hann hefði áhyggjur af þróuninni um þessar mundir og nefndi Ungverjaland sem eitt dæmi.

„Ég held ekki að þetta verði leyst með nýjum reglum eða skipulagi ef menn skortir Evrópuhyggjuna,“ sagði hann og vísaði til ákvörðunar ESB-þingsins um að refsa Ungverjum vegna þess sem það taldi árásir á fjölmiðla, minnihlutahópa og réttarreglur, kjarnagildi ESB.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …