Home / Fréttir / Rússar leita skjóls í Georgíu undan herkvaðningunni

Rússar leita skjóls í Georgíu undan herkvaðningunni

Rússar bíða við landamæri Georgíu.

Engin útleið frá Rússlandi er auðveld fyrir þá sem vilja komast undan herkvaðningu Vladimirs Pútins forseta sem birt var 21. september. Georgia, við suðurlandamæri Rússlands, er eitt af síðustu löndunum sem ekki hefur verið lokað. Við eina landamærahlið Georgíu hjá Verkhníj Lars-Zemo Larsi hafa því myndast langar bílaraðir þeirra sem vilja komast út úr Rússlandi.

Margir Rússar sem fara þessa leið nota samfélagsmiðla til að spyrja spurninga, leita ráða og deila reynslu sinni.

„Okkur tókst að komast inn í dag. Við erum þrjú í fjölskyldunni, þar með maðurinn minn (34 ára). Þeir spurðu ekki um neitt hvorki okkar megin né í Georgíu,“ sagði Rússi á Telegram-spjallsíðu sem er um Verkhníj Lars-Zemo landamærastöðina. „Biðin var ofsalöng! Við fórum í hana klukkan 17.00 og náðum til Georgiu 11.00 [daginn eftir]. Hafið nóg vatn og mat.“

Mörgum Georgíumönnum finnst lítil ástæða til að sýna samúð. „Eina áhyggjuefni ykkar er að verða ekki drepin í Úkraínu. Þið hafið haft sjö mánuði til að andmæla stríðinu, þið studduð hins vegar Pútin þar til þeir bönkuðu upp á hjá ykkur,“ sagði einn á spjallsíðunni.

Það var ekki aðeins að útgönguleiðir úr Rússlandi tepptust og flugvélar yrðu fullbókaðar heldur reis mótmælaalda um allt Rússland eftir að sagt var frá því að varnarmálaráðherrann, Sergeij Shoigu, ætlaði að ná i 300.000 varaliða til að berjast í Úkraínu. Þessi tala var fljótt dregin í efa og frásagnir bárust um að Kremlverjar ætluðu að öngla saman allt að milljón manna liðsauka.

Það eru ekki allir Rússar þeirrar skoðunar að auðvelt sé að komast fram hjá rússnesku landamæravörðunum. „Þegar komið er að landamærunum ræðst það af þeim sem skoðar vegabréfið þitt. Ég var ekki spurður um neitt. En í næsta glugga spurði [vörðurinn] margra spurninga og lítilsvirti [ferðamennina], sakaði þá um að yfirgefa ættjörðina á erfiðum tíma. Þeir bönnuðu nokkrum að fara inn í Georgíu – ég mat það þannig að 20. hver einstaklingur hafi verið sendur til baka,“ skrifaði ónefndur Rússi á Telegram-spjallsíðuna.

Aðrir segja að rússnesku landamæraverðirnir leggi hart að karlmönnum að upplýsa um stöðu sína samkvæmt reglum um herkvaðningu. „Við fórum yfir landamæri klukkan 14.00. Fimm voru í bílnum: 55, 19, 23, 35 og 45 ára gamlir. Herkvaðningin nær til okkar allra. Það tekur um 20 mínútur á mann að fá að halda áfram. Spurningar: 1. nafn, föðurnafn. 2. Fæðingarstaður, fæðingardagur. 3. Gegndir þú [her]þjónustu eða ekki og upplýsingar um herþjónustuskjöl …. Varstu upplýstur um herkvaðninguna? Spurningarnar geta verið fleiri. Við fengum allir að fara í gegn.“

Af spjallsíðunni má ráða að spurningarnar hafi skipt tugum þúsunda. Við landamærin eru rússneskir karlmenn einnig spurðir um ættjarðarást sína. „Hvers vegna ertu að fara? Ertu ekki foringi í varaliðinu? Þjóðin á í vanda. Hvenær kemur þú aftur? Þeir [rússnesku landamæraverðirnir] voru ekki til neinna vandræða. Þeir leyfðu okkur að fara,“ skrifaði Rússi.

Fyrir herkvaðningu Pútins höfðu margir Rússar þá þegar leitað skjóls í Georgíu eftir að innrásin var gerð í Úkraínu.

Íbúar í höfuðborginni Tíblisi og öðrum borgum Georgíu hafa efnt til stuðningsaðgerða á götum úti við Úkraínumenn og málstað þeirra. Ríkisstjórn Georgíu hefur stigið varlegar til jarðar.

Irakli Garibashvili, forsætisráðherra Georgíu, neitaði að eiga aðild að refsiaðgerðum gegn rússneskum stjórnvöldum. Olli það reiði margra Georgíumanna.

Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, sem er að mestu valdalaus, hefur lýst öflugum stuðningi við Úkraínu. Hún segir að samstöðukennd Georgíumanna mótist af eigin reynslu þeirra af innrás Rússa árið 2008.

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …