
Alltof mikið er gert úr því að NATO ógni Rússlandi úr vestri, á sama tíma er rússneski herinn látinn drabbast niður í austri, segir rússneskur herfræðingur.
Aleksander Khramsjikhin, deildarstjóri í Miðstöð stjórnmálafræða í Moskvu, gerir grín að sameiginlegum yfirlýsingum kínverskra og rússneskra ráðamanna undanfarin ár um „strategíska samvinnu“ sína á sviði efnahagsmála og stjórnmála til að mynda fyrirstöðu gegn vestrænum hagsmunum og til að þurfa ekki að óttast neitt við sameiginleg landamæri sín.
„Áróðursgamanið um „strategísku samvinnuna“ og að Kínverjar séu ekki ógn er enn heimskulegra en sagan endalausa um banvænu hættuna af máttlausum trúðum NATO,“ segir Khramsjikhin í tímariti um hergagnaiðnað sem er nátengt rússneska varnarmálaráðuneytinu.
Hann segir ástæðulaust að hafa áhyggjur af NATO og stórefla rússneska heraflann í vestri á sama tíma og svo virðist með mið- og austurhluti Rússlands virðist gleymdir.
Í grein sem Khramsjikhin birti 25. júní lýsir hann áhyggjum vegna þess sem gerist austast í Rússland. Sjálfur er hann eðlisfræðingur og starfaði áður innan nýfrjálshyggjuflokks í Moskvu þegar Boris Jeltsín, forveri Vladimirs Pútíns, var forseti.
Fjögur ár eru nú liðin síðan Khramsjikhin birti umdeilda greiningu með þeirri niðurstöðu að Kínverjar gerðu næstum óhjákvæmilega innrás í Rússland. Kínverjar yrðu að hafa aðgang að auðlindum sem finna mætti í Rússlandi og Kazakhstan en ekki í Suðaustur-Asíu.
Hugveitan Carnegie birti einnig greiningu í febrúar í ár þar sem segir að Kínverjar hafi augljóslega náð undirtökunum í samvinnunni við Rússa. Þetta ójafnvægi á kostnað Rússa eigi aðeins eftir að aukast. Kínverjar ráði ferðinni og hlutskipti Rússa sé að láta af stjórn.
Khramsjikhin segir að tæknileg hlið hernaðarsamstarfsins við Kínverja hafi orðið að engu og þess vegna hafi Kínverjar frjálsar hendur gagnvart Rússum.
„Þrátt fyrir endurnýjun á nokkrum sviðum er myndin sem við blasir sú sama: eystra herstjórnarsvæðið er enn minjasafn gamalla tækja,“ segir hann. Stórar glufur séu í loftvarnakerfinu sem sé endurnýjað mun hægar en í vestri.
Khramsjikhin segir að frá Bajkalvatni í suðurhluta Síberíu til Vladivostok við Kyrrhafið verði sífellt erfiðara að búast til varnar gegn Frelsisher alþýðunnar í Kína sem hafi verið endurnýjaður til mikilla muna undanfarinn áratug. Hann lýsir stöðu Rússa sem „hörmulegri“ á þessum slóðum bæði vegna magns og gæða vopna þeirra.
Hann nefnir einnig kjarnorkuvopn til sögunnar og segir rússneska ráðamenn ekki vilja nota skammdræg kjarnorkuvopn á eigin landsvæði. Gripu Rússar til þessara vopna myndu Kínverjar svara í sömu mynt og jafna borgir í evrópska hluta Rússlands við jörðu hvort sem þeir þyrftu þess eða ekki.
Á norsku vefsíðunni ABC Nyheter þar sem sagt er frá þessari grein Khramsjikhins er efni hennar borið undir Øystein Tunsjø, prófessor í alþjóðastjórnmálum við Rannsóknastofnun varnarmála í Noregi sem segir:
„Ég tel að langdræg og skammdræg kjarnorkuvopn Rússa hafi fælingarmátt gagnvart Kínverjum og að Khramsjikhin fari villur vega í mati sínu á gildi kjarnorkuvopnanna.
Hann hefur hins vegar rétt fyrir sér þegar hann segir Kínverja hafa algjöra yfirburði gagnvart Rússum í venjulegum vopnabúnaði og að Rússar ráði yfir einskonar vopnaminjasafni langt í austri. Á þessu svæði eru Rússar álíka hernaðarlega hættulegir Kínverjum og Kanadamenn Bandaríkjamönnum.
Að auki er þess að geta að um þessar mundir og um fyrirsjáanlega framtíð eru Kínverjar sáttir við strategísku samvinnuna við Rússa og þeir hafa engan hag af því að ögra Rússum hernaðarlega. Önnur svæði skipta Kínverja meira máli (Kóreuskagi, eyjarnar Senkaku/Diaoyu, Tævan, Suður-Kínahaf, Suðaustur-Asía og landamærin gagnvart Indlandi). Næstu ár skiptir Tævan líklega mestu máli.“