Home / Fréttir / Rússar leggja herflugvöll í Sýrlandi

Rússar leggja herflugvöll í Sýrlandi

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti og Vladimír Pútín Rússlandsforseti.

Bandaríkjamenn segja að síðustu aðgerðir Rússa á flugvelli í Sýrlandi bendi til þess að þeir búi sig undir að koma þar upp eigin flugstöð, Jeff Davis, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sagði mánudaginn 14. september ferðir fólks og farartækja bentu til þess að Rússar ætluðu að skapa sér aðstöðu á flugvellinum fyrir sunnan borgina Latakia.

Davis vildi ekki upplýsa fréttamenn um allt sem Bandaríkjamenn vissu um fjölda hermanna eða tækjabúnað þeirra í stöðinni.

Reuters-fréttastofan vitnaði í yfirmenn innan Bandaríkjahers sem sögðu að sjö rússneskir T-90 skriðdrekar hefðu sést við flugvöllinn.

Syrian Observatory for Human Rights sem starfar í Bretlandi og fylgist með mannúðarmálum í Sýrlandi staðfesti að Rússar væru að leggja langa flugbraut fyrir stórar flugvélar skammt frá Hemeimeem herflugvellinum  í Latakia-strandhéraðinu í Sýrlandi.

Rússar eru helstu stuðningsmenn Bashars al-Assads, forseta Sýrlands. Þeir segja að aukin hernaðarumsvif sín í Sýrklandi séu hluti alþjóðaátaks gegn hryðjuverkamönnum. Rússneskir sérfræðingar hafa meðal annars það verkefni að þjálfa sýrlenska hermenn.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, staðfesti í samtali við rússneska sjónvarpsstöð sunnudaginn 13. september að Rússar sendu vopn til Sýrlands. Þetta hefði verið gert og héldi áfram. Hann sagði óhjákvæmilegt að senda rússneska sérfræðinga með vopnunum, þeir kæmu að uppsetningu vopnanna og þjálfun i notkun þeirra.

Þrátt fyrir ummæli Lavrovs sagði Riyad Haddad, sendiherra Sýrlands í Rússlandi, við Interfax-fréttastofuna mánudaginn 14. september að fréttir af rússneskum hermönnum í Sýrlandi væri „lygi sem dreift væri af mönnum á Vesturlöndum og í Bandaríkjunum“.

Af hálfu bandaríska varnarmálaráðuneytisins er lögð áhersla á að tryggja að ekki komi til árekstra milli rússneskra hervéla og véla á vegum vestrænna ríkja. Átta ríki hafa tekið höndum saman með Bandaríkjamönnum við loftárásir á Íslamska ríkið og liðsmenn þess. í Sýrlandi – ríkin eru Bahrain, Bretland, Jórdanía, Kanada, Qatar, Sameinuðu furstadæmin, Sádí-Arabía og Tyrkland.

Ástralar, Frakkar og Hollendingar hafa einnig ráðist á Íslamska ríkið í Írak. François Hollande Frakklandsforseti sagði mánudaginn 14. september að „nauðsynlegt“ væri að beita frönskum orrustuvélum í Sýrlandi.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …