
Varnarmálaráðherra Eistlands segir að Rússar kunni að nota miklar heræfingar til að flytja þúsundir hermanna til fastrar viðveru í Hvíta-Rússlandi síðar á þessu ári til að ögra NATO.
Herir Rússa og Hvít-Rússa efna til sameiginlegra heræfinga í september 2017. Innan NATO hefur þeirri skoðun verið hreyft að meira en 100.000 hermenn taki þátt í æfingunum og þar verði meðal annars æfð notkun kjarnorkuvopna. Stærri æfing hefur ekki verið haldin hjá þessum herjum síðan 2013.
Margus Tsahkna, varnarmálaráðherra Eistlands, sagði vísbendingar um að Rússar ætluðu ekki að flytja hermenn sína á brott frá Hvíta-Rússlandi að æfingunum loknum.
Hann sagði að birt hefði verið áætlun Rússa um að senda 4.000 lestarvagna til Hvíta-Rússlands með hermenn og búnað þeirra. Hugsanlega yrðu hermennirnir aðeins með farseðla aðra leiðina, sagði Tashkna við Reuters-fréttastofuna á Möltu við upphaf óformlegs fundar varnarmálaráðherra ESB-ríkjanna þar.
„Þetta er ekki einkaskoðun mín, við fylgjumst náið með því hvernig Rússar búa sig undir þessar æfingar,“ sagði ráðherrann.