Home / Fréttir / Rússar krefjast handtöku á Mikhaíl Khodorkovskíj – sakaður fyrir morð

Rússar krefjast handtöku á Mikhaíl Khodorkovskíj – sakaður fyrir morð

Mikhaíl Khodorkovskíj.
Mikhaíl Khodorkovskíj.

Rússneskur dómstóll hefur gefið fyrirmæli um að Mikhaíl Khodorkovskíj, gagnrýnandi Kremlverja og fyrrverandi viðskiptajöfur, skuli handtekinn. Rússneskir fjölmiðlar skýrðu frá þessu miðvikudaginn 23. desember og vitnuðu í Vladimir Markin, talsmann Rannsóknarnefndar Rússlands, sem sagði að dómstóllinn hefði gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Khodorkovskíj sem heldur sig mest í London.

Khodorkovskíj sat 10 ár í rússnesku fangelsi áður en Vladimír Pútín náðaði hann árið 2013. Fyrr í þessum mánuði var Khodorkovskíj sakaður um aðild að morði á bæjarstjóra í Síberíu á árinu 1998. Khodorkovskíj, eitt sinn auðugasti maður Rússlands, hefur hafnað þessum ásökunum og sakað Vladimír Pútín um að hundsa stjórnarskrá Rússlands og leiða þjóðina til glötunar.

Þriðjudaginn 22. desember gerði rússneska lögreglan húsleit hjá ýmsum starfsmönnum góðgerðastofnunar sem Khodorkovskíj styður. Stofnunin heitir Opið Rússland og segja starfsmenn hennar að einnig hafi verið leitað á heimilum þeirra árið 2003 áður en Khodorkovskíj var handtekinn þá.

Í Frankfurter Allgemeine Zeitung (FAZ) er miðvikudaginn 23. desember sagt að Mikhaíl Khodorkovskíj hafi brotið allar brýr að baki sér gagnvart Kremlverjum 9. desember þegar hann hafi sagt að stofnunin Opið Rússland ætti að bjóða Rússum annan kost en stjórnarherrar landsins: „Þegar ekki er um frjálsar kosningar að ræða eða aðrar lögbundnar leiðir til stjórnarskipta er aðeins eitt úrræði fyrir hendi – það er byltingin,“ sagði Khodorkovskíj að sögn FAZ.  Draga yrði Pútín fyrir rétt vegna brota hans og láta hann standa þar þjóðinni reikningsskil gerða sinna.

Blaðamaður FAZ segir að í þessu ljósi verði að skoða það sem gerðist í St. Pétursborg að morgni 22. desember þegar gengið var til atlögu gegn Opnu Rússlandi með húsleit í skrifstofum stofnunarinnar og á heimilum starfsmanna hennar. Ekki hafi verið minnst á hvatningu Khodorkovskíjs til byltingar þegar gripið var til aðgerðanna heldur vísað til starfa hans á sínum tíma sem forstjóra olíufélagsins Yukos. Þá hefðu stjórnendur Yukos gerst sekir um að stela olíu af dótturfyrirtæki félagsins.

Í FAZ segir að með aðgerð sinni gegn Opnu Rússlandi vilji ráðamenn Rússlands einnig verjast aðför fyrrverandi eigenda Yukos sem unnu fyrir fasta alþjóðlega gerðardóminum í Haag sumarið 2014 mál sem þeir höfðuðu til að endurheimta eignir að verðmæti allt að 50 milljörðum dollara sem rússneska ríkir gerði upptækar á sínum tíma. Síðan hafa þeir reynt að fullnægja niðurstöðum dómstólsins með aðför að rússneskum eignum erlendis. Sumarið 2015 voru reikningar rússneskra ríkisstofnana frystar í Brussel vegna þessa máls og leiddi það til mikillar spennu í samskiptum Rússa og Belga. Undir lok október 2015 samþykkti rússneska þingið lög sem heimilar upptöku eigna erlendra ríkja sæti rússneskar ríkiseignir aðför í viðkomandi ríki. Segir blaðamaður FAZ að rekja megi húsrannsóknirnar 22. desember til þess sem gerðist í Haag sumarið 2014.

Khodorkovskíj hefur margsinnis sagt opinberlega að hann eigi ekki neina aðild að skaðabótamáli fyrrv. eigenda Yukos. Augljóst er hins vegar að ráðamenn Rússlands vilja styrkja stöðu sína gegn honum að minnsta kosti áróðursstöðuna. Í því skyni hefur hann verið sakaður um aðild að morðinu á bæjarstjóranum í olíubænum Neftejugansk árið 1998. Fyrrverandi öryggisstjóri Yukos hlaut dóm fyrir morðið árið 2006.

Áður en hann var myrtur hafði bæjarstjórinn uppi þungar ásakanir á hendur Yukos: Úr því að fyrirtækið greiddi enga skatta gæti hann ekki greitt starfsmönnum bæjarins laun. Eftir morðið gripu íbúar Neftejugansk til harðra mótmæla gegn Yukos. Khodorkovskíj hafnar öllum ásökunum um tengsl milli fyrirtækisins og ódæðisins. Í málinu gegn fyrrverandi öryggisstjóranum sagði verjandi hans að Yukos hefði ekki haft neinn hag af því að drepa bæjarstjórann. Morðið hefði þvert á móti valdið fyrirtækinu miklu tjóni.

Í FAZ segir að einnig kunni persónulegar ástæður að búa að baki árásinni á Opið Rússland. Nýlega hafi stofnunin birt á vefsíðu sinni rússneska þýðingu á ákæru gegn foringja rússnesks mafíuhóps sem situr í gæsluvarðhaldi á Spáni. Í skjalinu er að finna tilvitnanir í hleruð símtöl frá árunum 2007 og 2008 sem gefa til kynna að tengsl milli mafíuforingjans og Alexanders Bastríjkins, formanns Rannsóknarnefndar Rússlands (sem er skólabróðir Pútíns).

Alexander Bastríjkin er að sögn FAZ  ekki hinn eini sem kemur við sögu í málinu á Spáni. Í skjölum dómsmálsins kemur fram að hinn ákærði hafði á sínum tíma beint samband við Viktor Subkov, þáv. forsætisráðherra og Anatolij Serdjukov, þáv. varnarmálaráðherra. Þessi hlið málsins kann einnig að skýra húsleitina heima hjá starfsmönnum Opins Rússlands. Að leita þar núna að einhverju sem tengist gömlum Yukos-málum er út í hött að sögn FAZ.

 

Skoða einnig

Úkraínuher segist hafa grandað rússnesku herskipi við Eystrasalt

Úkraínuher hefur tekist til þess að sökkva eða valda tjóni á 22 rússneskum herskipum á …