
Rússar segja að herlögregla sín hafi farið yfir Efrat-fljót í Sýrlandi og ekið inn í sýrlenska landamærabæinn Kobani til að hefja þar eftirlit í samræmi við nýgerðan samning við Tyrki.
„Rússneskir herlögreglumenn hittu forystumenn heimamanna til að ræða samstarf í samræmi við fyrirmæli sín,“ sagði rússneska varnarmálaráðuneytið í opinberri tilkynningu miðvikudaginn 23. október.
Þetta er birt daginn eftir að forsetar Tyrklands og Rússlands gerðu samning um að halda her Kúrda fjarri landamærum Sýrlands og Tyrklands.
Í samningum er gert ráð fyrir að herafli Rússa og Sýrlendinga hafi eftirlit með flutningi varnarsveita Kúrda (YPG) og vopna þeirra í 30 km fjarlægð frá landamærunum.
Ljúka ber flutningnum á 150 klukkustundum.
Rússar og Tyrkir ætla síðan að halda uppi sameiginlegu eftirliti á „örugga svæðinu“.
Vladimir Pútin Rússlandsforseti og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti gerðu samninginn á fundi í rússneska strandbænum Sotsjí við Svartahaf.
Þeir hittust á meðan hlé var á sókn tyrkneska hersins inn í Sýrland í því skyni að hrekja á brott kúrdískar hersveitir sem Tyrkir líta sem hryðjuverkamenn. Bandaríkjastjórn beitti sér fyrir að hlé yrði gert á tyrknesku sókninni. Það stóð í fimm daga og lauk 22. október.
Tyrknesk stjórnvöld höfðu hótað að halda sókn sinni áfram en tilkynntu síðla kvölds 22. október að „á þessu stigi er ekki þörf á frekari aðgerðum utan núverandi aðgerðasvæðis“.
Frá Moskvu bárust fréttir um að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, styddi samning Rússa og Tyrkja.
Abbas Musavi, talsmaður íranskra utanríkisráðuneytisins í Teheran, sagði að í samningnum fælist „jákvætt skref“. Íranir fögnuðu öllu sem gert væri til að stilla til friðar í Sýrlandi og tryggja heilleika landsins.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði við blaðamenn í Brussel að „of snemmt“ væri að segja til um hvort samningurinn stuðlaði að friði á svæðinu. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að finna pólitíska lausn á átökunum í Sýrlandi áður en varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna kæmu saman til fundar 24. og 25. október þar sem rætt yrði um innrás Tyrkja í norðurhluta Sýrlands sem sætt hefði mikilli gagnrýni margra ríkja.
Hann sagði að NATO mundi halda áfram baráttu gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams þótt Bandaríkjamenn hefðu horfið frá Sýrlandi með herafla sinn. Hann fagnaði tillögu Þjóðverja um að alþjóðalið yrði sent til Sýrlands til að stuðla að pólitískri lausn.
Stoltenberg sagði að NATO mundi halda áfram að styðja þá sem berðust gegn Ríki íslams bæði í Írak og Afganistan, einkum með því að þjálfa lið heimamanna.
Formaður kristilegra demókrata (CDU) í Þýskalandi, Annegret Kramp-Karrenbauer, varnarmálaráðherra Þýskalands, hvatti mánudaginn 21. október til þess í samtali við þýsku fréttastofuna DW að alþjóðlegt herlið myndaði „öruggt svæði“ í norðausturhluta Sýrlands til að efla baráttuna gegn Ríki íslams, til að skapa stöðugleika á svæðinu og bæta líf almennra borgara. Segja fréttaskýrendur að það hafi komið mörgum innan NATO á óvart að þýski varnarmálaráðherrann gerði tillögu í þessa veru vegna þess hve Þjóðverjar haldi almennt að sér höndum vegna hernaðarátaka á alþjóðavettvangi.
Donald Trump fagnar
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði miðvikudaginn 23. október að refsiaðgerðir gegn Tyrkjum vegna sóknar þeirra gegn Kúrdum hefðu verið afturkallaðar. Til þeirra yrði ekki gripið að nýju nema eitthvað gerðist sem sér mislíkaði.
Forsetinn sagði Tyrki hafa fullvissað sig um að þeir virtu vopnahléið og það væri varanlegt.
Gripið var til refsiaðgerðanna 14. október eftir að Trump sætti þungri gagnrýni fyrir að kalla fámennt bandarískt herlið frá Sýrlandi heimkynnum Kúrda helstu bandamanna Bandaríkjamanna í átökunum við Ríki íslams.
Forsetinn sagði 23. október að hann mundi fela „fámennu“ herliði að dveljast áfram í Sýrlandi til að verja olíumannvirki. Trump lýsti samningi Rússa og Tyrkja sem „miklum árangri“.
„Vopnahléið hefur verið virt og herförinni er lokið. Kúrdar eru öruggir og hafa unnið vel með okkur,“ sagði Trump á Twitter.
Forsetinn efndi til blaðamannafundar í Hvíta húsinu miðvikudaginn 23. október og lýsti vopnahléinu í Sýrlandi sem diplómatískum sigri sínum. „Látum einhverja aðra berjast um þennan blóðidrifna sand,“ sagði Trump í Hvíta húsinu með Mike Pence varaforseta og Mike Pompeo utanríkisráðherra sér við hlið auk þjóðaröryggisráðgjafans Roberts O‘Brien. Þeir þrír fóru í fyrri viku til Ankara, höfuðborgar Tyrklands, til að semja um hlé á átökum Tyrkja og Kúrda.
„Aðrir hafa gengið fram og veitt aðstoð og við fögnum því; önnur ríki hafa gengið fram fyrir skjöldu,“ sagði Trump og er talið að hann vísi með þessum orðum til fundar Pútíns og Erdogans í Sotsjí. „Þeir vilja aðstoða og við fögnum því.“
Trump hefur hvað eftir annað leitast við að lýsa því sem gerst hefur í þessum mánuði á landamærum Sýrlands og Tyrklands sem sínum sigri þótt hann hafi vakið reiði forystumanna í hernum, utanríkisþjónustunni og einnig meðal helstu bandamanna sinna í flokki repúblíkana.
Upphaf átakanna má rekja til símtals 6. október 2019 þar sem Erdogan sagði Trump að hann ætlaði að ráðast inn í norðaustur Sýrland. Trump skipaði nokkrum tugum bandarískra hermanna að hafa sig á brott frá svæðinu og gaf þá í raun innrásarher Tyrkja grænt ljós.
Trump gerði ekkert úr nýjum rússneskum áhrifum á slóðum Kúrda á blaðamannafundi sínum: „Það vorum við Bandaríkjamenn sem réðum þessari niðurstöðu, engir aðrir,“ sagi forsetinn. „Engin önnur þjóð. Mjög einfalt.“