Home / Fréttir / Rússar hrekja fólk á flótta frá Sýrlandi til að skapa ESB vanda

Rússar hrekja fólk á flótta frá Sýrlandi til að skapa ESB vanda

Farandfólk vegalaust í Grikklandi,
Farandfólk vegalaust í Grikklandi,

Vladimir Pútín Rússlandsforseti vinnur skipulega að því að skapa flóttamannavanda til þess að hann verði „yfirþyrmandi“ og „brjóti“ Evrópu sagði Philip Breedlove, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO og Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna, þriðjudaginn 1. mars. Hann segir að Pútín og Bashar al-Assad Sýrlandsforseti hafi „vígvætt“ straum flótta- og farandfólks með sprengjuárásum á dvalarstaði almennra borgara.

Herhöfðinginn lét þessi orð falla þegar hann gaf hermálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings skýrslu.

„Eina skýringin sem ég get fundið á tilitslausri beitingu vopna af hálfu herja Bashars al-Assads annars vegar og ómarkvissri beitingu vopna Rússa hins vegar er sú að þeir vilji reka fólk á flótta og skapa öðrum vanda með því að þurfa að annast það,“ sagði hershöfðinginn.

Í The Daily Telegraph segir að Alexander Jakovenko, sendiherra Rússa í London, hafi viðurkennt að þarna séu tengsl með því að skrifa á samfélagsmiðil að vopnahlé í Sýrlandi með þátttöku rússneska hersins mundi „draga úr vandanum vegna aðkomufólks innan ESB“.

Vandinn vegna flótta- og farandfólksins vex dag frá degi í Grikklandi eftir að landamærunum gagnvart Makedóníu var lokað vegna ákvörðunar stjórnvalda þar í samvinnu við Austurríkismenn og stjórnvöld Balkanríkjanna.

„Við erum komin að þeim tímapunkti þegar líklegt er að Grikklandi verði fórnað í þágu ESB,“ sagði Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, þriðjudaginn 1. mars.  Hann sagði að gríski forsætisráðherrann gæti sjálfum sér um kennt. Hann hefði látið undir höfuð leggjast að opna skráningarstöðvar í samræmi við reglur ESB.

Werner Faymann, kanslari Austurríkis, sagði þriðjudaginn 1. mars að land sitt yrði ekki „biðstofa fyrir Þýskaland “.

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …