Home / Fréttir / Rússar hóta Svíum með nýrri kynslóð skotflauga gangi þeir í NATO

Rússar hóta Svíum með nýrri kynslóð skotflauga gangi þeir í NATO

Hér má sjá rússneska hermenn vinna við að setja Iskander-skotflaug á pall.
Hér má sjá rússneska hermenn vinna við að setja Iskander-skotflaug á pall.

Rússar leggja nú lokahönd á nýja gerð skotflauga sem líklegt er að verði settar á skotpalla í norðurhluta Rússlands gangi Svíar í NATO sagði varaformaður varnarmálanefndar efri deildar rússneska þingsins föstudaginn 29. apríl. Daginn áður, fimmtudaginn 28. apríl, hafði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, sagt að rússneska ríkisstjórnin mundi grípa til „hertæknilegra ráða“ við norður landamæri sín gengju Svíar í NATO.

„Um þessar mundir er verið að ljúka við þróun nýrrar, nútímalegrar kynslóðar af skotflaugum sem ekki hafa verið kynntar. Vopn NATO munu ekki bíta á þeim, nær það einnig til eldflaugavarna,“ sagði Evgeníj Serebrennikov þingmaður.

Hann sagði einnig að herafli Rússa við landamæri þeirra í norðri og norðvestri og þar með Norðurflotinn yrði efldur færu Svíar í NATO. Þingmaðurinn sagði orðrétt við fréttastofuna:

„Hér er ekki aðeins um hertæknilega þætti að ræða heldur einnig fjölda. Rússar munu fjölga í her sínum við landamærin í norðri og norðvestri og einnig í Norðurflotanum. Bæði Svíar og ráðamenn NATO verða að átta sig.“

Fimmtudaginn 28. apríl sagði Sergei Lavrov utanríkisráðherra við Dagens Nyheter í Stokkhólmi að Svíar hefðu sýnt Rússum kulda eftir að þeir innlimuðu Krímskaga í mars 2014. Ráðherrann sagði:

„Hver þjóð hefur rétt til að ákveða hvernig hún hagar öryggismálum sínum en menn verða að átta sig á að færist hernaðarlegir innviðir nær landamærum Rússlands verðum við að sjálfsögðu að grípa til nauðsynlegra hertæknilegra aðgerða. Ástæðulaust er að taka þessu persónulega, hlutirnir ganga bara svona fyrir sig.“

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, brást illa við orðum Lavrovs og sagði í samtali við sænsku TT-fréttastofuna að þau hefðu verið „ónauðsynleg“. Svíar tækju eigin ákvarðanir um varnir sínar og öryggisstefnu. „Við krefjumst þess að sá réttur sé virtur á sama hátt og við virðum ákvarðanir annarra ríkja um öryggi þeirra og varnarmálastefnu,“ sagði forsætisráðherrann. Rússar vissu mætavel að Svíar stæðu utan hernaðarbandalaga og hefðu lengi gert það.

Karin Enström, utanríkistalsmaður Moderatana, hægri-miðjuflokksins, sagði að kalla ætti sendiherra Rússa í sænska utanríkisráðuneytið til að fá nánari skýringar á afstöðu Rússa. Lavrov hefði í sömu andrá sagt að hver þjóð tæki ákvarðanir um eigin öryggismál og að Rússar mundu bregðast við af þunga. Miklu skipti að ræða milliliðalaust við Rússa en að viðræður um þessi mál færu ekki að mestu fram í fjölmiðlum.

Lars Adaktusson, þingmaður á ESB-þinginu, endurómaði skoðanir margra á samfélagssíðum þegar hann sagði ummæli Lavrovs „sýna glöggt hvers vegna Svíar eiga að fara í NATO“.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …