Home / Fréttir / Rússar hóta heimshörmungum fái Úkraínuher sóknarvopn

Rússar hóta heimshörmungum fái Úkraínuher sóknarvopn

Þýskur Leopard 2 skriðdreki.

Vajastjeslav Volodin, forseti neðri deildar þings Rússlands, Dúmunnar, og náinn bandamaður Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, sagði sunnudaginn 22. janúar að fengju Úkraínumenn sóknarvopn leiddi það heimshörmunga þar sem ekki yrði unnt að færa rök gegn beitingu kjarnavopna.

Volodin sagði að stuðningur Bandaríkjamanna og NATO við Úkraínu þrýsti heiminum í átt að „hryllilegu stríði“. Hann nefndi sérstaklega langdræg vopn sem nota mætti til árása á Rússland.

„Ákveði ráðamenn í Washington og NATO löndum að leggja til vopn sem verða notuð til að ráðast á borgir og til að leggja undir sig landsvæði okkar, eins og þeir hóta að gera, leiðir það til gagnaðgerða með öflugri vopnum,“ sagði Volodin á samfélagssíðunni Telegram.

„Rök eins og þau að kjarnorkuveldi hafi ekki áður notað gjöreyðingarvopn í staðbundnum átökum eru haldlaus. Það stafar af því að þessi ríki hafa ekki staðið frammi fyrir því að öryggi borgara þeirra er ógnað og landsyfirráðarétti þeirra.“

Volodin (58 ára) hefur verið forseti Dúmunnar frá 2016, áður starfaði hann við forsetaembættið. Hann situr í öryggisráði Pútins og hefur því reglulega samband við hann.

Yfirlýsingum sínum um hættuna á stigmögnun og kjarnorkuátökum beina Rússar einkum til Þjóðverja þar sem þær eiga hljómgrunn meðal þeirra sem vilja ekki að Úkraínuher fái þýska Leopard 2 skriðdreka.

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, gagnrýndi stjórn Þýskalands harðlega sunnudaginn 22. janúar fyrir andstöðu hennar við sendingu skriðdrekanna til Úkraínu.

„Afstaða Þjóðverja er óviðunandi,“ sagði forsætisráðherrann við PAP fréttastofuna. „Nú er næstum ár frá því að stríðið hófst. Saklaus fólk fellur dag hvern í valinn. Rússneskar sprengjur valda stórskaða í borgum Úkraínu. Ráðist er á borgaraleg skotmörk, konur og börn eru drepin.“

Ráðherrann sagðist bíða eftir „ótvíræðri yfirlýsingu“ frá Berlín þar sem Pólverjum yrði heimilað senda Leopard 2 skriðdreka úr landi. Söluskilmálar af hálfu í Þjóðverja banna afhendingu skriðdrekanna til þriðja aðila án þýsks samþykkis.

Pólverjar segjast tilbúnir til að afhenda Úkraínustjórn 14 Leopard skriðdreka og gefa til kynna að þeir eigi í viðræðum við ríkisstjórnir 15 annarra landa um málið.

Morawiecki sagði að neiti Þjóðverjar að veita Úkraínustjórn þessa aðstoð „munum við mynda lítinn bandamannahóp þeirra ríkja sem eru tilbúin til að gefa þeim eitthvað af nútímatækjum sínum, nútíma skriðdreka sína“

James Cleverly, utanríkisráðherra Breta, sagði sunnudaginn 22. janúar að hann vildi að þjóðir tækju sig saman um að láta Úkraínumönnum í té Leopard 2 skriðdreka auk stórskotavopna.

Þegar breski utanríkisráðherrann var spurður hvort honum þætti Þjóðverjar veita Úkraínumönnum nægilegan stuðning sagðist hann vilja sjá „alla ganga eins langt og þeir geta, hvert land styður Úkraínu á þann hátt sem hentar því best“.

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …