Home / Fréttir / Rússar hóta gagnaðgerðum – Erdogan neikvæður í garð Finna og Svía

Rússar hóta gagnaðgerðum – Erdogan neikvæður í garð Finna og Svía

Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.

Rússar segjast nauðbeygðir til að grípa til „gagnaðgerða“ vegna ákvörðunar nágranna sinna, Finna, um að ganga í NATO. Rússneska utanríkisráðuneytið sagði að skref Finna yrði til þess að skaða tvíhliða samskipti þjóðanna alvarlega fyrir utan að grafa undan öryggi og stöðugleika í norðurhluta Evrópu.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, segist vænta þess að sæki Finnar og Svíar um aðild hljóti umsóknir þeirra „verulega hraða“ afgreiðslu.

Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sagði föstudaginn 13. maí útilokað fyrir NATO-þjóð eins og Tyrki að líta áform Svía og Finna um NATO-aðild jákvæðum augum, lönd þeirra væri „heimili margra hryðjuverkasamtaka“.

Bandaríkjastjórn segist styðja NATO-aðild Finna og Svía.

Í tilkynningu rússneska utanríkisráðuneytisins er skrefi Finna lýst sem „róttækri breytingu á utanríkisstefnu Finnlands. Aðild Finna að NATO skaðar verulega tvíhliða samskipti Rússa og Finna og viðhald stöðugleika og öryggis í norðurhluta Evrópu. Rússar neyðast til að grípa til gagnaðgerða bæði hertæknilegra og á annan hátt til að vega upp á móti ógnum við þjóðaröryggi þeirra sem spretta af þessu,“ segir ráðuneytið.

Yfirvöld í Moskvu hafa ekki greint frá því í hverju þessar aðgerðir þeirra munu felast.                                                                                                                                                                              

Vara-fastafulltrúi Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum, Dmitríj Poljanskíj, sagði Svíþjóð og Finnland verða hugsanleg skotmörk Rússa verði löndin hluti af NATO, segir í frétt rússnesku fréttastofunnar RIA.

Þegar Sauli Niinistö Finnlandsforseti og Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, kynntu stuðning sinn við tafarlausa NATO-aðild Finnlands á blaðamannafundi 12. maí sagði forsetinn að aðildinni væri ekki beint gegn neinum. Rússar hefðu valdið henni og ættu að líta í spegil.

Í frétt The New York Times föstudaginn 13. maí segir að bandarískir embættismenn hafi vikum saman átt fundi með finnskum og sænskum stjórnarerindrekum um hvernig best yrði staðið að því að tryggja öryggi þjóðanna á umsóknartímanum um aðild að NATO.

Það vefjist ekki fyrir bandarísku embættismönnunum að skýra afstöðuna til Finnlands og Svíþjóðar annars vegar og Úkraínu hins vegar þegar rætt sé um aðild að NATO. Norrænu ríkin séu mikils metin lýðræðisríki með nútímalegan herafla sem taki reglulega þátt í æfingum með herjum frá Bandaríkjunum og öðrum NATO-ríkjum. Ríkin eigi samvinnu um kafbátaleit, vernd neðansjávarstrengja og eftirlitsflug á Eystrasalti. Ríkin tvö séu með öðrum orðum náin samstarfsríki NATO.

Á hinn bóginn hafi Úkraína á sínum tíma verið kjarnaríki gömlu Sovétríkjanna. Fyrir Vladimir Pútin vaki að endurreisa þá stöðu, að minnsta kosti að hluta. Þótt Úkraínumenn hafi fyrir þremur árum breytt stjórnarskrá sinni til að geta gengið í NATO, sæti þeir gagnrýni fyrir spillingu og veikbyggt lýðræðislegt stjórnkerfi. Það kunni að líða mörg ár þar til grunnkröfum NATO til nýrra aðildarríkja sé fullnægt í Úkraínu.

Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sem óskaði eftir tafarlausri NATO-aðild fyrst eftir á þjóð hans var ráðist áttaði sig á að það yrði aldrei samþykkt. Hann breytti þá um stefnu og sagðist sætta sig við stöðu utan NATO en öryggistryggingar yrði hann að fá.

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …