Flugatvik sem tengist ferð rússneskrar þingmannanefndar til Genfar í Sviss hefur leitt til diplómatískrar spennu í samskiptum rússneskra stjórnvalda við yfirvöld í Frakklandi og Sviss. Þegar rússneska flugvélin kom inn í svissenska lofthelgi var svissnesk F-18 orrustuþota send á loft til að fylgjast með för hennar. Frá þessu skýrði svissneska varnarmálaráðuneytið að kvöldi mánudags 19. október.
Áður en tilkynningin var gefin út í Bern, höfuðborg Sviss, höfðu Rússar hins vegar kallað sendiherra Frakklands í Moskvu á teppið í utanríkisráðuneytinu, til að mótmæla því að frönsk orrustuþota hefði að morgni mánudags 19. október flogið hættulega nærri rússnesku flugvélinni.
Síðar báðust Rússar afsökunar á frumhlaupi sínu gagnvart Frökkum. Þeir hefðu fengið skýringu á atvikinu frá Svisslendingum.
Meðal farþega um borð í rússnesku vélinni var Sergej Narjitskin, forseti Dúmunnar, neðri deildar rússneska þingsins. Þingmennirnir voru á leið til alþjóðaráðstefnu í Genf. Þingforsetinn er á svörtum lista Evrópusambandsins og honum var fyrr á árinu vísað frá Finnlandi þar sem hann ætlaði að sitja þing Öryggissamvinnustofnunar Evrópu (ÖSE).
Svissneska utanríkisráðuneytið sagði að flogið hefði verið að rússnesku vélinni skammt frá landamæraborginni Biel. Þetta hefði verið venjubundið eftirlitsflug í tilvikum sem þessum, þau væru mörg ár hvert.
Frakkar áréttuðu að engin frönsk hervél hefði verið þarna á ferð. Lýst var vonbrigðum franskra yfirvalda vegna fljótræðis Rússa við að kalla franska sendiherrann í utanríkisráðuneytið til að hlusta á ástæðulaus mótmæli.