Home / Fréttir / Rússar herða gæslu á Norðurleiðinni

Rússar herða gæslu á Norðurleiðinni

Rússnesk varðskip á vegum FSB.
Rússnesk varðskip á vegum FSB.

Rússland er stærsta land i heimi.  Landamæri ríkisins eru rúmlega 20.000 kílómetra löng.  Eftir að Sovétríkin liðu undir lok var Landamæraeftirliti Rússlands (e. The Federal Border Guard Service of Russia), sem komið var á fót 1993, falið að gæta þeirra.  Áratug síðar, eða 2003, færði Vladimír Pútín Rússlandsforseti stofnunina undir rússnesku öryggislögregluna (FSB) (e. Russian Federal Security Service) sem er arftaki KGB.

Í grein í norska miðlinum The Barents Observer þann 28. maí er vísað í viðtal sem rússneska fréttastöðin TASS tók við Vladimír Kulishov, yfirmann í landamæraeftirlitinu, í tilefni landamæravarðadagsins.  Hann er haldinn 28. maí ár hvert og er hátíðisdagur í Rússlandi.

Að mati Kulishovs eru norðurlandamæri Rússlands í hættu því áhugi erlendra herja og njósnastofnana á norðurskautssvæðinu hefur aukist að undanförnu.  Þeim sé beitt til að grafa undan yfirráðum Rússa á efnahagslögsögu sinni. Kulishov segir alþjóðleg samtök taka þátt í þessu laumuspili.  Þau gefi sig út fyrir að berjast fyrir réttindum rússneskra frumbyggjasamfélaga og verndun hafsins.  Raunverulegt markmið þeirra sé hins vegar að hvetja til þess að skipaumferð um Norðurleiðina frá Atlantshafi til Kyrrahafs verði takmörkuð.  Þau berjist einnig gegn réttindum Rússa á norðurskautssvæðinu og vilji koma í veg fyrir að þeir geti nýtt sér náttúruauðlindir sem þar sé að finna.  Rússum stafar líka hætta af þeim sem vilja rannsaka norðurskautið að mati Kulishovs.  Margir þeirra horfi vonaraugum á náttúruauðlindir á hafsvæðum í eigu Rússa.

Verkefni Landamæraeftirlits Rússlands

Í grein The Barents Observer er einnig fjallað um aukin umsvif Landamæraeftirlits Rússlands á norðurskautssvæðinu.  Fram kemur að árið 2016 hafi Vladimir Pútín Rússlandsforseti veitt eftirlitinu fullt löggæsluvald á Norðurleiðinni.  Að sögn Kulishovs hafa Rússar komið upp fullkomnu eftirlitskerfi á þessum slóðum.  Auk þess hefur Landamæraeftirlitið tekið nokkur ný varðskip í þjónustu sína.  Það sé því vel í stakk búið til að tryggja öryggi þeirra sem sigla um svæðið.  Jafnframt muni eftirlitið aðstoða þá sem leita að og nýta náttúruauðlindir á norðurslóðum.

Fram kemur í lok greinarinnar í The Barents Observer að í fyrra hafi varðskip sem fylgjast með Beringshafi og hafsvæðinu í kringum Novaja Zemlja eyjaklasann komið upp um 70 brot á landamæralögum og náttúruverndarlögum.  Varðskipin héldu sig þó ekki aðeins á þessum slóðum því árið 2019 var nokkrum þeirra siglt eftir allri Norðurleiðinni.  Héldu þau frá Murmansk við Kólaflóa inn af Barentshafi og til borgarinnar Petropavlovsk-Kamtsjatskíj sem liggur við Kamtsåjakaskagann á Kyrrahafsströnd Rússlands.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Óljósar fregnir af lögsögukröfum Rússa á Eystrasalti vekja grunsemdir

  Rússnesk stjórnvöld kynntu miðvikudaginn 22. maí áform um að breyta ytri markalínum rússneskra yfirráðasvæða …