Home / Fréttir / Rússar heimta leynd yfir SÞ-skýrslu um brot N-Kóreustjórnar

Rússar heimta leynd yfir SÞ-skýrslu um brot N-Kóreustjórnar

 

Myndin sýnir skip N-Kóreu í ólöglegum viðskiptum á hafi úti.
Myndin sýnir skip N-Kóreu í ólöglegum viðskiptum á hafi úti.

Rússar hindra að Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) birti skýrslu sem sýnir að Norður-Kóreumenn brjóta gegn ákvörðunum SÞ um takmarkanir á sölu olíu til Norður-Kóreu. Þar er að sögn starfsmanna SÞ meðal annars um að ræða olíusölu úr rússneskum skipum á hafi úti.

„Skýrslan er lokuð vegna þess að við erum ósammála ýmsu sem þar stendur og hvernig staðið var að skýrslugerðinni,“ sagði Vasilíj Nebenzja, sendiherra Rússa hjá SÞ, við blaðamenn fimmtudaginn 30. ágúst.

Sendiherrann sagði ekki hverju Rússar mótmæla en starfsmenn SÞ sögðu að höfuðmótbára Rússa á fundi um skýrsluna hefði verið vegna frásagnar í henni um að rússnesk skip stunduðu ólöglegan flutning á olíu milli skipa á hafi úti. Á þann hátt hefur N-Kóreumönnum tekist að kaupa meira af olíu í ár en SÞ heimilar í samþykktum sínum um refsiaðgerðir gegn þeim.

Vegna þessara upplýsinga um olíuinnflutninginn til N-Kóreu hefur Bandaríkjastjórn hvatt öryggisráðið til að binda enda á frekari eldsneytisflutninga til landsins í ár. Kínverjar og Rússar beittu neitunarvaldi í ráðinu til að hindra framgang tillögunnar.

Bandarísk stjórnvöld leggja hart að stjórnvöldum annarra landa að leggja sér lið við að knýja N-Kóreustjórn til að uppræta kjarnorkuvopn sín á Kóreuskaga.

Efni skýrslunnar, sem er 62 bls., hefur að verulegu leyti verið lekið til alþjóðlegra fréttastofa, Rússum til mikillar gremju. Hafa þeir krafist sérstakrar rannsóknar á lekanum.

Í skýrslunni segir frá því að bann við útflutningi frá N-Kóreu sé ekki virt. Þaðan séu flutt kol, járn, sjávarafurðir og annar varningur fyrir milljónir dollara.

Í frétt AFP um skýrsluna segir að N-Kóreumenn hafi ekki horfið frá áætlunum sínum um eldflaugar og kjarnorkuvopn og enn sem fyrr hafi þeir að engu samþykktir öryggisráðsins með ólöglegum olíukaupum milli skipa á hafi úti auk þess sem þeir hafi á árinu 2018 selt kol á milli skipa.

 

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …