Home / Fréttir / Rússar heimta að fá aftur sveitasetur í Bandaríkjunum

Rússar heimta að fá aftur sveitasetur í Bandaríkjunum

Sveitasetur rússneskra sendiráðsmanna í Maryland í Bandaríkjunum.
Sveitasetur rússneskra sendiráðsmanna í Maryland í Bandaríkjunum.

Rússar krefjast þess að Bandaríkjastjórn heimili sendiráðsstarfsmönnum sínum aðgang að tveimur sveitasetrum sem lokað var undir lok árs 2016. Háttsettir bandarískir og rússneskir embættismenn ræddu málið í Washington þriðjudaginn 18. júlí. Fulltrúi Rússa sagði eftir þriggja tíma fund að deilan væri „næstum“ leyst.

Dmitríj Peskvov, talsmaður Rússlandsforseta, segir að ekki sé unnt að setja skilyrði fyrir að sveitasetrin verði afhent að nýju. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússland, lýsti lokun húsanna sem „ráni um hábjartan dag“.

Bandaríkjastjórn rak 35 rússneska sendiráðsmenn úr landi í desember 2016 vegna gruns um afskipti Rússa af bandarísku forsetakosningunum og lokaði einnig sveitasetrunum.

Embættismenn Rússa og Bandaríkjamanna ræddu málið í Washington. Thomas Shannon, aðstoðar-utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fundaði 18. júlí  með Sergei Rjabkov, aðstoðar-utanríkisráðherra Rússa, í Washington.

Upphaflega var ráðgert að efna til fundarins í júní St. Pétursborg í júní en honum var aflýst þegar Bandaríkjastjórn bætti 38 einstaklingum og stofnunum á bannlista sinn vegna aðgerða Rússa í Úkraínu.

Rússar sögðu fyrir nokkrum dögum að þeir hefðu í huga að grípa til „sérstakra aðgerða“ til að svara aðgerðum Bandaríkjastjórnar – ef til vill yrðu 30 bandarískir sendiráðsmenn reknir úr landi og bandarískar ríkiseignir gerðar upptækar.

Bandaríkjastjórn tók í sínar hendur sveitasetur rússneska sendiráðsins í Maryland, 18.2 hektara lands og byggingar. Rússar fengu setrið í kalda stríðinu og aðstöðuna þar notuðu Rússar sér til upplyftingar. Þar var einnig um flókin fjarskiptatæki að ræða og bandarískir embættismenn sögðu þetta njósnamiðstöð.

Hitt sendiráðsetrið er í Glen Cove á Long Island í New York. Þar eru 49 herbergi. Það er einnig sagt tilvalið til fjarskiptahlerana.

Á sínum tíma ákvað Vladimir Pútin Rússlandsforseti að Bandaríkjamönnum skyldi ekki svarað í sömu mynt. Rússar segja að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi ekki kynnt „neina áætlun um að leysa vandann“ á fundinum með Pútin í Hamborg 7. júli þegar þeir hittust i tengslum við G20-leiðtogafundinn.

Rússar gerðu sér þó vonir um að Trump mundi taka málið nýjum tökum. Þær vonir hafa orðið að engu vegna þróunar Rússa-mála í Washington undanfarna daga. Nú segja Rússar að „næstum“ hafi tekist að leysa deiluna.

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …