Home / Fréttir / Rússar hefja kafbátaæfingu sem teygir sig í GIUK-hliðið

Rússar hefja kafbátaæfingu sem teygir sig í GIUK-hliðið

 

Kjarnorkukafbáturinn Severodvinsk af Jasen-gerð. Nýjasti og fullkomnasti kafbátur rússneska Norðurflotans. Kafbáturinn er nú við æfingar í nágrenni Íslands. Hann var tekinn í notkun árið 2013.
Kjarnorkukafbáturinn Severodvinsk af Jasen-gerð. Nýjasti og fullkomnasti kafbátur rússneska Norðurflotans. Kafbáturinn er nú við æfingar í nágrenni Íslands. Hann var tekinn í notkun árið 2013.

Í fyrri viku létu að minnsta kosti átta kjarnorkuknúnir rússneskir kafbátar úr heimahöfnum sínum á Kóla-skaga við austurlandamæri Noregs. Þetta kemur fram í frásögn leyniþjónustu norska hersins sem birtist í NRK, norska ríkisútvarpinu.

Norska leyniþjónustan segir við NRK að með þessari aðgerð vilji Rússar sýna Bandaríkjamönnum að þeir geti ógnað austurströnd Bandaríkjanna með því að verja athafnasvæði kafbáta sinna á þann veg að unnt sé að skjóta langdrægum eldflaugum frá svæðinu á skotmörk í Bandaríkjunum.

Að mati leyniþjónustunnar vilja Rússar kalla fram viðbrögð af hálfu NATO sem sýni eftirlits- og leitargetu NATO auk annarra viðbragða af hálfu bandalagsins.

Kafbátunum verður líklega siglt um GIUK-hliðið, það er milli Grænlands, Íslands og Bretlands. NRK segir meginmarkmiðið að komast vestur fyrir Grænland.

„Rússar vilja geta sagt „þetta er okkar haf“, okkur er þetta fært. Við getum náð til Bandaríkjanna. Það er þetta sem Rússar vilja segja okkur. Þeir vilja láta reyna á getu Vesturlanda til að finna þá og bregðast við ferðum þeirra,“ segir leyniþjónustan við NRK.

Sömu heimildarmenn norska ríkisútvarpsins segja að pólitísk ákvörðun um aðgerð af þessu tagi sé örugglega tekin á æðstu stöðum, flotayfirvöld ákveði þetta ekki.

Ståle Ulriksen, herfræðingur og sérfræðingur við norska Sjøkrigsskolen segir að svo virðist sem helmingur kafbátaflotans sé notaður til að loka hliðinu milli Finnmerkur, Bjarnarey og Svalbarða.

„Kafbátarnir tveir sem ekki eru kjarnorkuknúnir eru þá venjulega næst Noregi. Hefðbundin aðferð við að verja athafnasvæði kafbátanna í norðri er þá að senda hina kafbátana út í GIUK-hliðið til að loka því,“ segir Ulriksen

„Þetta er grunnþáttur í strategískum varnaraðgerðum. Hitt er ekki ólíklegt að markmiðið sé að komast miklu lengra út á Atlantshaf. Það eru fyrst og fremst nýjustu kafbátarnir sem nota má í því skyni,“ segir Ulriksen við NRK.

Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Aleksandr Moisejev, aðmíráll, yfirmaður rússneska Norðurflotans, heimsóttu norska landamærabæinn Kirkenes föstudaginn 25. október til að minnast þess að 75 ár voru liðin frá því að sovéski herinn hvarf frá Finnmörk í Noregi. Fyrir heimsókn Rússanna höfðu kafbátarnir búist til brottfarar.

Í Barents Observer laugardaginn 26. október birtist frétt um að tveir kafbátar af Sierra-gerð úr Norðurflotanum hefðu lagt úr höfn og sigldu í átt til Noregshafs til æfinga á miklu dýpi.

Í NRK sagði norska leyniþjónustan að átta af 10 kafbátum undan strönd Noregs væru kjarnorkuknúnir. Segir leyniþjónustan að hún hafi „viðunandi eftirlit“ með því hvar kafbátarnir halda sig.

Tveir kjarnorkukafbátar eru fyrir vestan Bjarnareyju, milli Svalbarða og Finnmerkur, nyrsta hluta Noregs.

Tveir kafbátar eru fyrir sunnan og austan Bjarnareyju í varðstöðu við leiðina inn í austurhluta Barentshafs.

Tveir kafbátar af Sierra-gerð eru við æfingar í norðurhluta Noregshafs.

Í NRK segir að kafbátaaðgerðin muni líklega standa í 60 daga. Henni ljúki fyrir rússneska nýárið og jólahald rétttrúnaðarkirkjunnar.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …