Home / Fréttir / Rússar hefja flutning á jarðgasi með skipum frá Jamal-skaga við Norður-Íshaf

Rússar hefja flutning á jarðgasi með skipum frá Jamal-skaga við Norður-Íshaf

Nýja gasflutningaskipið Christophe de Margerie.
Nýja gasflutningaskipið Christophe de Margerie.

Rússar leggja nú mikla áherslu á að nýta norðurleiðina svonefndu, siglingaleiðina milli Atlantshafs og Kyrrahafs fyrir norðan Rússlands. Bloomberg fréttastofan birti nýlega fréttaskýringu þar sem sagði að á árinu 2016 hefði flutningur á milli hafanna verið innan við 3% af þeim varningi sem fluttur var sjóleiðis eftir norðurleiðinni en hann hefði verið 30% árin 2012 til 2013.

Rússar nýta sér nú þessa samgönguleið sjálfir meira en áður og fimmtudaginn 30. mars tilkynnti Sergeij Zybko, skipstjóri á nýja gasflutningaskipinu Christophe de Margerie, Vladimír Pútín Rússlandsforseta að skipið og 29 manna áhöfn þess hefðu staðist allar prófanir í reynslusiglingum þess í Norður-Íshafi og skipið hefði þriðjudaginn 28. mars komið til nýju hafnarinnar í Sabetta í Jamal-héraði Rússlands og væri til þess búið að flytja jarðgas þaðan hvert á land sem væri.

„Ekkert sérstakt gerðist þegar skipið sigldi norðurleiðina og um Ob-flóa. Skipið er tæknilega gallalaust, áhöfnin hraust og skipið hefur sýnt að það er mjög öflugt í ís, það er tilbúið til siglinga allan ársins hring og tul að flytja gas frá Sabetta,“ er haft eftir skipstjóranum í tilkynningu frá Kreml, rússnesku forsetaskrifstofunni.

Á vefsíðunni Barents Observer segir að Christophe de Margerie hafi komið til Sabetta að morgni 28. mars. Á leiðinni þangað var látið reyna á hæfni skipsins. Því var siglt inn í rússneska hluta Barents-hafs 10. febrúar og fór síðan um norðurhluta Kara-hafs. Fór skipið fram og aftur um svæðið og einnig inn á Laptev-haf.

Christophe de Margerie er fyrsta gasflutningaskipið af 15 sem á að smíða fyrir Jamal-gasvinnslustöðina, Yamal LNG. Novatek heitir fyrirtækið sem á og rekur þessa gasvinnslu og að því er stefnt að þegar árið 2018 nemi hún 16,5 milljón lestum af LNG.

Rússneska ríkisstjórnin hefur fjárfest mikið í mannvirkjum vegna gasvinnslunnar, þar á meðal í 50 km löngum, 300 m breiðum, 15 m djúpum skipaskurði frá Ob-flóa til gasútflutningshafnar nyrst á strönd Jamal-skaga.

Höfnin er næstum fullgerð og segir samgönguráðherra Rússlands að á árinu 2016 hafi um1.200 skip af öllum stærðum og gerðum notað hana og flutt þangað um þrjár milljónir lesa af varningi.

Eftir að Pútín heyrði tíðindin þakkað hann öllum sem komið hefðu að verkinu og sagði að yrði jafnvel að verki staðið áfram yrðu Rússar vafalaust stærstu framleiðendur á jarðgasi til flutnings með skipum.

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …