Rússneska herstjórnin hefur tilkynnt að hluti liðsafla hennar sem hefur setið um Úkraínu snúi nú aftur til búða sinna í Rússlandi, bæði frá Hvíta-Rússlandi og Krímskaga. Æfingum hersins er segir í frétt Ifax-fréttastofunnar rússnesku þriðjudaginn 15. febrúar.
Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, gerði grín að vestrænum njósnastofnunum á samfélagsmiðli fyrir að hafa birt opinberlega dagsetningu innrásar Rússa í Úkraínu. Hún sagði að 15. febrúar 2022 yrði minnst sem dagsins þegar vestræna áróðursvélin brast. Vestrið hefði verið „niðurlægt og sigrað“ án þess að skotið hefði verið einu skoti.
Í Úkraínu önduðu menn léttar vegna fréttanna og sögðu að sameinað diplómatískt átak með vestrænum bandamönnum hefði dugað til að koma í veg fyrir rússneska innrás.
„Okkur og bandamönnum okkar hefur tekist að koma í veg fyrir að Rússar stigmögnuðu ástandið enn frekar. Nú er kominn miður febrúar og þið sjáið að enn má ná árangri með diplómatískum aðferðum,“ sagði Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, við blaðamenn.
Rússneska þingið samþykkti 15. febrúar ályktun þar sem Vladimir Pútin forseti er hvattur til að viðurkenna sjálfstæði aðskildu héraða rússneskumælandi í austurhluta Úkraínu. Vilja þingmennirnir að héruðin verði „sjálfstæð og fullvalda“ með viðurkenningu Rússa.
Breski íhaldsþingmaðurinn Tom Tugendhat, formaður utanríkismálanefndar breska þingsins, sagði í útvarpsviðtali að morgni 15. febrúar að Pútin hefði fengið það út úr umsátrinu sem hann vildi, að vestrænir stjórnmálamenn gengju fyrir hann með friðartilmælum. Hann hefði sýnt að hann gæti látið vestræn stjórnmál og fréttir snúist um sig. Með framgöngu sinni skapaði hann skjól fyrir bandamenn sína í Peking svo að þeir gætu gert það sem þeir vildu. Pútin hefði alið á ágreiningi sem ríkti innan NATO og meðal evrópskra samstarfsþjóða, þeir gætu „ekki einu sinni“ komið sér saman um orkustefnu svo að ekki væri minnst á fjárhagslegar þvinganir eða hernaðaraðgerðir.
Kæmu menn til Moskvu og endurtækju það sem Bandaríkjamenn hefðu þegar sagt hæddist rússneski utanríkisráðherrann að þeim og útmálaði þá sem kjána, segðu þeir eitthvað annað benti gestgjafinn á misræmið og gæfi þá mynd að sundurlyndi einkenndi vestrænan málflutning.
Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Rússland, hitti Zbigniew Rau, pólskan starfsbróður sinn, í Moskvu þriðjudaginn 15. febrúar. Að fundinum loknum sagði Lavrov að heræfingunum umhverfis Úkraínu væri að ljúka eins og ráðgert hefði verið. Viðræðum við fulltrúa Vesturlanda yrði haldið áfram.