Dmitríj Peskov, talsmaður Vladimirs Pútins Rússlandsforseta, hafnaði fimmtudaginn 16. júlí ásökunum Breta um að „rússneskir gerendur“ hefðu reynt að hafa áhrif á úrslit bresku þingkosninganna í desember 2019 og líklegast sé að rússneskir leyniþjónustumenn hafi með tölvuinnbroti reynt að stela upplýsingum um gerð bóluefnis gegn COVID-19.
Peskov sagði við TASS-fréttastofuna: „Við höfum engar upplýsingar um hver kann að hafa brotist inn í tölvukerfi lyfjafyrirtækja og rannsóknarstofa í Bretlandi. Eina sem við getum sagt er þetta: Rússar eiga enga aðild að þessum tilraunum.“
Breska netöryggisstofnunin sagði fimmtudaginn 16. júlí „næstum öruggt“ að tölvuþrjótar á vegum rússnesku leyniþjónustunnar hefðu reynt að stela upplýsingum um bóluefni gegn COVID-19.
Stofnunin The National Cyber Security Centre sagði árásina hafa beinst að rannsóknar- og þróunarstofnunum í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada.