Home / Fréttir / Rússar hafna ásökunum Breta um eiturárás – krefjast sönnunargagna

Rússar hafna ásökunum Breta um eiturárás – krefjast sönnunargagna

skynews-sergei-skripal-an-yulia_4250962
Julia og Sergei Skripal á góðri stund.

 

Breski sendiherrann í Moskvu, Laurie Bristow,var kallaður í rússneska utanríkisráðuneytið þriðjudaginn 13. mars, sama dag og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, neitaði að Rússar stæðu að baki eiturefnaárásinni í Salisbury í S-Englandi sunnudaginn 4. mars. Lavrov sagði að Rússar myndu aðeins koma að málinu og vinna með Bretum fengju þeir að sjá sýnishorn af efninu.

„Rússar bera enga ábyrgð,“ sagði Lavrov á blaða- og sjónvarpsfundi. Þetta er talið til marks um stigmögnun í deilunni milli breskra og rússneskra stjórnvalda vegna árásarinnar á Sergei Skripal, fyrrv. njósnara Rússa, og Juliu, dóttur hans.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, gaf Rússum frest til miðnættis þriðjudaginn 13. mars til að skýra afstöðu sína eða sæta gagnaðgerðum. Lavrov gaf til kynna að Rússar létu þetta sem vind um eyru þjóta. Rússum hefði verið neitað um sýnishorn af taugaeitrinu. Hann sagði neitunina brot á samningnum um bann við efnavopnum.

Lavrov sagði að samningurinn hefði að geyma ákvæði sem tryggði Rússum 10 daga frest til að svara opinberri ásökun Breta um að þeir hefðu notað bannað efni innan breskra landamæra.

„Stjórnkerfið er risavaxið hér í Rússlandi, þetta er hnattrænt land, við glímum við fjölda vandamála, bæði innan lands og utan,“ sagði Andrei Klimov, varaformaður utanríkisráðs rússenska sambandsríkisins, í símtali við blaðamann breska blaðsins The Guardian. „Ég hef engan áhuga á þessari sögu ykkar um innra uppgjör og skandala.“

Theresa May sagði í neðri deild breska þingsins mánudaginn 12. mars að í Salisbury hefði taugaeitrið novitsjok frá Sovét-tímanum verið notað. Eitrinu er lýst sem laumulegu og hraðvirku gjöreyðingarvopni. Það er bæði fljótandi og duft. Þarf ekki nema örlítið magn af dufti til að drepa þann sem fyrir árásinni verður. Það er talið miklu sterkara en eitrið sem var notað til að drepa hálfbróður Kims Jong-uns, harðstjóra í N-Kóreu, á flugvelli í Kuala Lumpur í Malasíu.

Vegna orða May og umræðna í breskum fjölmiðlum um þaulskipulagða árás að undirlagi rússneskra yfirvalda saka rússneskir embættismenn Breta um að vera heltekna af ótta við Rússagrýlu sem þeir skapi sjálfir.

Rússar kjósa forseta sunnudaginn 18. mars. Vladimír Pútín er öruggur með endurkjör. Talið er að hann óttist áhugaleysi almennings og að kjörsókn verði lítil. Grípi Bretar til harðra gagnaðgerða vegna morðtilraunarinnar verði það til að ýta undir þá tilfinningu á meðal Rússa að um land þeirra sé setið af óvinum. Til að halda þeim í skefjum sé best að sem flestir þjappi sér um Pútín.

Boðað er að miðvikudaginn 14. mars verði Pútín á kosningafundi á Krímskaga. Innlimun hans í Rússland árið 2014 spillti sambúð Rússa og Vesturlanda.

Síðan hefur Pútín hrist af sér ýmis alþjóðahneyksli eins og árásina á farþegaflugvélina MH17 sem var grandað af rússnesku flugskeyti yfir austurhluta Úkraínu og afskipti af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016.

Í símtalinu við The Guardian sagði Klimov að Rússar hefðu ekkert tilefni til að ráðast á Skripal og gaf til kynna að önnur ríki sem áður lutu sovésku valdi kynnu að standa að baki árásinni. Um leið og hann neitaði nokkurri rússneskri aðild flutti hann einnig varnaðarorð:

„Mig langar aðeins að segja eitt við Rússa sem vona að þeir getið falið sig í Bretlandi fyrir „vondum Rússum“: Þið njótið mjög lítils öryggis. Fyrir löngu breyttist þetta þarna í stað þar sem vondir atburðir gerast. Það er ekki Moskvumönnum að kenna, það er eitthvað að þarna.“

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …