Home / Fréttir / Rússar hafa í hótunum við Finna

Rússar hafa í hótunum við Finna

Frá undirritun varnarsamnings Finna og Bandaríkjamanna í Washington 18. desember 2023. Elina Valtonen utanríkisráðherra og Antti Häkkänen varnarmálaráðherra Finnlands með Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Finnski sendiherrann í Moskvu, Antti Helanterä, var kallaður á teppið í rússneska utanríkisráðuneytinu í Moskvu að morgni þriðjudagsins 19. desember, daginn eftir að ritað var undir tvíhliða varnarsamning Finna og Bandaríkjamanna í Washington.

Lýstu rússneskir embættismenn vanþóknun sinni á nánara varnarsamstarfi Finna og Bandaríkjamanna. Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði að Helenterä sendiherra hefði verið gert ljóst að nýja samningnum yrði „ekki látið ósvarað“.

„Aukinn hernaðarmáttur NATO við landamæri okkar ógnar öryggi Rússneska sambandsríksins og honum verður svarað af rússneskri hálfu,“ sagði Zahkarova og einnig:

„Gripið verður til nauðsynlegra aðgerða til að svara árásaðgerðum Finna og bandamanna þeirra í NATO. Það er algjörlega á ábyrgð finnskra stjórnvalda að svæði góðra nágrannasamskipta hefur verið breytt í hugsanlegt átakasvæði.“

Samkvæmt samningnum fær Bandaríkjaher aðgang að nokkrum herstöðvum og svæðum í Finnlandi, þar á meðal í nyrsta hluta landsins, Lapplandi. Einnig verður komið upp vopnabúrum, birgða- og tækjageymslum fyrir bandaríska heraflann. Þá hafa bandarískar herflugvélar, herskip og brynfarartæki aðgang að Finnlandi og heimild til ferða um landið.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …