Home / Fréttir / Rússar hafa í hótunum vegna nýja flugmóðurskips Breta

Rússar hafa í hótunum vegna nýja flugmóðurskips Breta

Flugmóðurskipið Queen Elizabeth.
Flugmóðurskipið Queen Elizabeth.

Rússar hafa svarað háðsyrðum Breta um gamla rússneska flugmóðurskipið Admiral Kuznetsov með því að lýsa nýju flaggskipi breska flotans, flugmóðurskipinu Queen Elizabeth, sem „stóru þægilegu skotmarki“. Admiral Kuznetsov beri mikið af eldflaugum og Queen Elizabeth skuli halda sér í hæfilegri fjarlægð.

Metingur hófst eftir að Sir Michael Fallon, varnarmálaráðherra Breta, sagði fyrir nokkrum dögum að Rússar ættu að öfunda Breta vegna Queen Elizabeth vegna þess að flugmóðurskip þeirra væri svo gamalt og úr sér gengið.

Rússneska varnarmálaráðuneytið tók upp þykkjuna vegna þessara ummæla og veittist fimmtudaginn 29. júní að Sir Michael og breska flugmóðurskipinu sem kostar 3,1 milljarð punda.

Rússarnir sögðu að „hrifningarorð“ Sir Michaels „um yfirburði fallega ytra útlits nýja flugmóðurskipsins í samanburði við flugmóður-beitiskipið Admiral Kuznetsov sýna hve algjörlega fávís Fallon er um vísindi herflota“.

Rússneska ráðuneytið sagði að Kuznetsov væri fullur af eldflaugum gegn herskipum og kafbátum en Queen Elizabeth yrði að treysta á vopn F-35B flugvéla sinna og fylgdarskipa, freigáta, tundurspilla og kafbáta.

„Breska flugmóðurskipið líkist býflugu sem getur aðeins sent flugvélar úr kvið sínum og treystir á hóp nálægra herskipa, stuðningsskipa og kafbáta sér til varnar. Einmitt þess vegna er breska flugmóðurskipið ekki annað en stórt fljótandi skotmark.

Hagsmunir breska flotans felast í þvi að hafa „fegurð“ flugmóðurskips síns ekki til sýnis á úthöfunum nema í nokkur hundruð mílna fjarlægð frá „fjarskyldum rússneska frænda sínum,“ sagði rússneska ráðuneytið.

Sir Michael hefur hvað eftir annað gert lítið úr Kuznetsov og kallaði skipið fyrr á árinu „smánarskipið“ þegar það var notað sem skotpallur gegn uppreisnarmönnum í Appelo í Sýrlandi.

Kuznetsov bættist við Norðurflota Sovétríkjanna í Murmansk árið 1991. Vandræði hafa oft skapast um borð í skipinu vegna bilana.

Bretar hafa engin áform um að setja eldflaugar um borð í Queen Elizabeth sem hóf reynslusiglingar í byrjun vikunnar og ætlað er að verði til taks innan breska flotans árið 2021. Fylgdarskip og flugvélar um borð i Queen Elizabeth eiga að tryggja varnir skipsins.

Breski flotinn gengur að því sem vísu að Rússar leggi sig fram um njósnir með ferðum skipsins á Norðursjó næstu sex vikur þegar vélar þess verða reyndar.

Sir Michael sagði um Rússana: „Við munum grípa til allra ráðstafana til að halda þeim fjarri en ég tel að þeir muni dást að skipinu. Þegar litið er á gamla, úr sér gengna Kuznetsov sem fór um Ermarsund fyrir nokkrum mánuðum er ég viss um að Rússar munu líta nokkrum öfundaraugum á þetta skip [okkar}.“

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …