Home / Fréttir / Rússar hæðast að Anders Fogh Rasmussen og Úkraínumönnum

Rússar hæðast að Anders Fogh Rasmussen og Úkraínumönnum

 

Petro Porosjenkó og Anders Fogh Rasmussen
Petro Porosjenkó og Anders Fogh Rasmussen

Anders Fogh Rasmussen, fyrrv. forsætisráðherra Dana og framkvæmdastjóri NATO, hefur verið skipaður sérlegur ráðgjafi Petros Porosjenkos Úkraínuforseta. Frá þessu var skýrt laugardaginn 28. maí. Fréttin hefur orðið rússneskum þingmönnum tilefni hæðnis- og frýjunarorða.

Rússneski þingmaðurinn Sergei Zhigarev, varaformaður varnarmálanefndar Dúmunnar, neðri deildar rússneska þingsins, sagði að með því að fá Fogh Rasmussen til liðs við sig sýndi Úkraínuforseti að hann treysti ekki eigin landsmönnum. Konstantín Koasjeff, formaður utanríkismálanefndar Dúmunnar, sagði þetta „sýndarmennsku“ í því skyni að „tryggja Úkraínu athygli meðal vestrænna samstarfsríkja“. Varaformaður utanríkismálanefndarinnart sagði þetta „óvinabragð“ í garð Rússa.

Fogh Rasmussen var framkvæmdastjóri NATO 2009 til 2014 og starfar nú á sviði almannatengsla. Hann sagði á Facebook laugardaginn 28. maí að hann mundi „vinna að öryggi og umbótum í Úkraínu og efla tengsl Úkraínu og ESB“. Hann sagði ástandið í austurhluta Úkraínu „ógnvekjandi“, hann hvatti ráðamenn í Kænugarði einnig til að leggja sig meira fram „í baráttunni gegn spillingu“.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti var föstudaginn 27. og laugardaginn 28. maí í Grikklandi. Á fundi í Aþenu sagði hann að Rúmenar yrðu að sætta sig við að með þeim yrði fylgst á gagnrýnin hátt eftir að þeir hefðu samþykkt að leyfa bandaríska gagneldflaugastöð í landi sínu. Það kæmi ekki til greina að ræða frekar um að Krím yrði að nýju hluti Úkraínu. „Hvað Krím varðar teljum við að málinu sé lokið í eitt skipti fyrir öll.“

Í tilefni af heimsókn Pútíns gagnrýndi Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands, viðskiptaþvinganir ESB gagnvart Rússum. „Við höfum margítrekað að vítahringur hervæðingar, orðræða kalda stríðsins og viðskiptaþvinganir skila engu. Lausnin felst í viðræðum.“

Heimild: EUobserver

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …