
Rússneskar sprengjuþotur gerðu miðvikudaginn 17. ágúst annan daginn í röð árásir á skotmörk í Sýrlandi eftir að hafa tekið á loft frá flugvelli í Íran. Í fyrsta sinn í sögunni hefur ríkisstjórn Írans leyft erlendu ríki að nota aðstöðu í landi sínu til árásar á skotmörk í þriðja ríki. Þetta er einnig í fyrsta sinn sem Rússar ráðast á óvini sína í Sýrlandi frá flugvelli undir yfirráðum annarra. Þess vegna verður að líta svo á að flug Tupolev eða Banckfire-sprengjuvélanna frá Hamedan-flugvelli í norðvestur Íran feli í sér mikilvæg þáttaskil. Þarna birtist inntak hernaðarsamvinnu milli stjórnvalda í Rússlandi og Íran sem kom til sögunnar í janúar 2016.
Rússar og Íranar hafa sameinast um að styðja Bashar el-Assad Sýrlandsforseta og hefur það orðið til að styrkja hernaðarleg tengsl þeirra. Eftir að samkomulag náðist um kjarnorkumál Írana varð þessi hernaðarsamvinna enn nánari. Rússneska fréttastofan Interfax segir að rússnesk stjórnvöld hafi einnig óskað eftir heimild Írana til að senda stýriflaugar um lofthelgi Írans á skotmörk í Sýrlandi.
Sprengjuþoturnar Tu 22M3 eru of stórar fyrir flugvelli Rússa í Sýrlandi. Þar til nú hafa þær verið sendar til árása í Sýrlandi frá flugvöllum Kákasus. Með því að stytta flugleið vélanna er unnt að nýta þær á hagkvæmari hátt til fleiri árása.
Í Le Figaro segir Isabelle Lasserre fimmtudaginn 18. ágúst að Rússar ætli að nota Tupolev-þoturnar til mikilla árása í lokaátökunum um ráð yfir sýrlensku borginni Aleppo, annarri stærstu borg Sýrlands þar sem var miðstöð efnahagslífs landsins. Nú halda stjórnarandstæðingar hluta borgarinnar og rufu fyrir skömmu umsátur stjórnarliðsins sem nýtur stuðnings Rússa.
Til þessa hafa Rússar notað Sukoi-þotur frá flugvelli í Sýrlandi til loftárása á stjórnarandstæðinga í Aleppo án þess að geta brotið þá á bak aftur. Nú kann að koma til þess að Rússar „teppaleggja“ yfirráðasvæði andstæðinga sinna og Assads með sprengjum úr Tupolev-þotunum frá flugvellinum í Íran, segir í Le Figaro. Þar kemur einnig fram að ekki sé víst að loftárásirnar dugi til þess sem þeim sé ætlað og megi þá ekki gleyma hinum tilgangi Rússa með því að koma sér fyrir í Íran: Vladimir Pútín nýti sér fálæti stjórnar Baracks Obama í Mið-Austurlöndum til að skapa sér áhrifastöðu á svæðinu, þungamiðjunni í alþjóðastjórnmálum. Með því að gera Aleppo að helsta átakapunkti í Sýrlandi láti Rússar og Íranir reyna á vilja og stefnu Bandaríkjastjórnar á svæðinu.
Allt gerist þetta á sama tíma og Rússar og Bandaríkjamenn ræða um samkomulag sín á milli um samstarf í Sýrlandi. Bandaríkjastjórn hefur þó ekki tekið undir bjartsýni Rússa sem láta eins og undirritun samnings sé á næsta leiti. Le Figaro segir stöðuna í raun þá að hvorki Bandaríkjamenn né Rússar vilji slá af kröfum sínum í Sýrlandi og stuðningi við ólíkar fylkingar þar. Rússar hafa til þessa lagt mesta áherslu á að sigra andstæðinga Assads en Bandaríkjamenn beina vopnum sínum einkum að Daesh.
Vísbendingar eru um að Rússar ætli einnig að beita sér gegn Daesh og nýta til þess Tupolev-sprengjuþoturnar. Þær eyðilögðu bækistöðvar Daesh fyrir fáeinum dögum. Ákveði Rússar að ráðast á Daesh í Írak verður það auðveldara en ella frá flugvellinum í Íran.
Le Figaro segir það sé hagstætt fyrir Assad að Rússar herði loftárásir sínar í Sýrlandi en slæmt fyrir almenna borgara landsins sem séu fórnarlömb stríðs án nokkurs enda þess í sjónmáli. Rússar hafi sagt í mars að þeir ætluðu að kalla lið sitt frá Sýrlandi. Nú herði rússneski herinn lofthernað sinn. Er það upphaf frekari stigmögnunar? spyr blaðið.
Í rússneskum fjölmiðlum er vitnað í sérfróða Rússa um öryggismál sem segja að samvinna Rússa og Írana í hermálum eins og hún birtist nú í sprengjuárásunum frá Hamedan-flugvelli sé „löðrungur fyrir Bandaríkin og NATO“.