
Rússneski Norðurflotinn gerði enn eina tilraunina með ofurhljóðfráa stýriflaug á Barentshafi laugardaginn 28. maí. Flauginni af Zircon (Tsirkon)-gerð var skotið 1.000 km frá freigátunni Admiral Gorshkov á skotmark í Hvítahafi. Stefnt er að því að flaugar af þessari gerð verið teknar í notkun síðar í ár.
Miðað við fyrri tilraunir með Zircon-flaugar töldu sérfræðingar að drægi þeirra væri 250-500 km en nú kom í ljós að hún er tvöfalt meiri.
Sagt er Zircon-flaugin nái allt að níföldum hljóðhraða (Mach 9). Ætlunin er að setja hana um borð í rússnesk beitiskip, freigátur og kafbáta. Flauginni má beita bæði gegn óvinaskipum og skotmörkum á landi. Bæði er unnt að hlaða hana með kjarnaoddum og hefðbundnu sprengiefni.
Nokkrar gerðir af ofurhljóðfráum flaugum eru nú í smíðum í Rússlandi. Í apríl 2022 var gerð tilraun með flaug af Sarmat-gerð. Hún getur borið 10 eða fleiri kjarnaodda og dregur til Bandaríkjanna.
Rússneskir embættismenn hafa hreykt sér af hæfni Zircon-flaugarinnar og sagt að ekki sé unnt að stöðva för hennar með þeim eldflaugavarnarkerfum sem nú séu notuð. Flaugin myndi um sig „rafgas-hjúp“ á lofti og þar með greini virk ratsjárkerfi hana ekki.
Vladimir Pútin Rússlandsforseti segir að herskip búin Zircon-flaugum, á siglingu fjarri átakasvæðum, geri Rússum kleift að granda „stjórnstöðvum“ með fárra mínútna fyrirvara.
Vegalengdin frá Barentshafi til Íslands eru um 2,300 km.
Heimild: Euronews, BarentsObserver.