Home / Fréttir / Rússar flytja skotflaugar fyrir kjarnorkuvopn til Kaliningrad

Rússar flytja skotflaugar fyrir kjarnorkuvopn til Kaliningrad

Hér má sjá rússneska hermenn vinna við að setja Iskander-skotflaug á pall.
Hér má sjá rússneska hermenn vinna við að setja Iskander-skotflaug á pall.

Rússneski herinn hefur flutt Iskander-M skotflaugar til hólmlendu sinnar Kaliningrad við Eystrasalt, milli NATO-ríkjanna Póllands og Litháens. Flaugarnar geta borið kjarnorkuvopn. Frá þessu var skýrt laugardaginn 8. október.

Igor Konashenkov, talsmaður rússneska varnarmálaráðuneytisins, sagði: „Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skotflaugarnar eru fluttar [til Kaliningrad] og notkun þeirra er liður í þjálfun rússneska hersins.“

Talsmenn stjórnvalda í Bandaríkjunum og Litháen sögðu að flutning flauganna til Kaliningrad nú mætti skoða sem pólitíska aðgerð til að sýna reiði ráðamanna í Moskvu í garð NATO. Af hálfu utanríkisráðuneytisins í Litháen var einnig gefið til kynna að Rússar vildu ef til vill knýja fram „undanslátt af hálfu Vesturlanda“ vegna átakanna í Sýrlandi og gagnvart Úkraínu.

Linas Linkevicius, utanríkisráðherra Litháens, sagði að skjóta mætti endurbættum Iskander-skotflaugum allt að 700 km. Þær ná því til Berlínar frá Kaliningrad.

Antoni Macierewicz, varnarmálaráðherra Póllands, sagði að líta yrði aðgerðir Moskvumanna „mjög alvarlegum augum“.

Rússar fluttu Iskander-flaugar sínar að vesturlandamærum Rússlands árið 2015 vegna heræfinga sem tengdust vaxandi spennu í tengslum við Úkraínu-deiluna. Konashenkov áréttaði laugardaginn 8. október að Kaliningrad hefði „ekki sérstöðu“ þegar litið væri til heræfinga um landið allt.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …