
Fjöldi skemmdarverka á yfirráðasvæði Rússa á Krímskaga og nágrenni hefur leitt til fyrirmæla Vladimirs Pútinss Rússlandsforseta um brottflutning allra orrustuvéla flughers Rússa frá Krím.
„Rússar ætla að fjarlægja allar orrustuvélar sínar frá Krím. Það er mjög líklega gripið til þess ráðs vegna nýlegra árása á rússneskar útstöðvar á svæðinu,“ segir í Business Insider sem vísar í trúnaðarskjöl frá NATO.
Það þykir til marks um veika stöðu Rússa að í stað þess að beita flugher sínum til sóknar gegn Úkraínuher er ákveðið að kalla orrustuþotur á brott frá Krímskaga. Hins vegar eru fleiri rússneskir landhermenn sendir til varnar á Krím.
„Rússar hafa nú þegar flutt tíu flugvélar, sex Su-35S og fjórar MiG-31BM orrustuþotur frá Krím til Rússlands. Þessu verður haldið áfram þar til allar orrustuvélar hafa verið fjarlægðar, líklega til að hindra frekara tjón vegna árása Úkraínumanna,“ segir í NATO-skýrslunni.
Þar segir að flestar vélarnar sem verði fluttar séu á Belbek-flugvelli nálægt Sevastopol, heimahöfn rússneska Svartahafsflotans. Þetta sé helsti flugvöllurinn sem notaður sé til að styðja við her Rússa í Suður-Úkraínu og flotann á Svartahafi. Brottför vélanna veiki umtalsvert stöðu Rússa á þessum slóðum.
Skemmdarverkin á Krímskaga eru langt handan víglínunnar sem Rússar hafa dregið í suðri. Fyrir utan tjónið á flugvélum og mannvirkjum hersins hafa almennir rússneskir borgarar á Krím fyllst ótta. Enginn veit hvar leynilegar sérsveitir Úkraínumanna láta næst til skarar skríða.
Áríð 2018 opnaði Pútin Kretsj-brúna við hátíðlega athöfn en hún tengir Krímskaga og Rússland yfir samnefnt sund. Eftir leynilega árás á eina af stöðvum flugsveita sovéska flotans streymdu 38.000 óttaslegnir rússneskir ferðamenn með hraði yfir brúna yfir til Rússlands þegar reyk lagði yfir baðstrendur þeirra við Svartahaf.
Pútin hefur gefið fyrirmæli um að fjölgað skuli í hernum um 90.000 menn. Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War telur að þessi fyrirmæli breyti í raun litlu. Það styrki ekki herinn við núverandi aðstæður að í hann gangi algjörlega óþjálfaðir nýliðar, jafnvel þótt þeir fái nútíma vopn. Þjálfunarleysi, engin reynsla af bardögum og skortur á líkamsrækt bæti í raun engu við herinn. Hér sé aðeins verið að bæta við meira fallbyssufóðri.
Ivan Fedorov forystumaður í hernumda bænum Melitopol segir að aðfaranótt sunnudags 28. ágúst hafi her Úkraínu eyðilagt stóra rússneska herstöð í bænum. Rússarnir hafi búið um sig í fyrrverandi bílasmiðju.
Auk þess eiga úkraínskir hermenn að hafa eyðilagt margar rússneskar skotfærageymslur í suðurhluta Úkraínu. Þeir hafi fellt 35 rússneska hermenn, níu bryndreka og vígtól.
Heimild: ABC-nyheter.