Home / Fréttir / Rússar flytja flotaæfingar út fyrir írska lögsögu

Rússar flytja flotaæfingar út fyrir írska lögsögu

Rauðu strikin sýna efnahagslögsögu Íra. Neðst í er punktur þar sem rússnesku skipin ætluðu að æfa, á írskum kolmunnamiðum. Nú er ákveðið að æfingin verði utan lögsgögunnar.

Rússar ætla að færa flotaæfingar sínar fyrir suðvestan Írland út fyrir írsku efnahagslöguna. Rússneska sendiráðið í Dublin, höfuðborg Írlands, staðfesti þetta sunnudaginn 30. janúar.

Juríj Filatov, sendiherra Rússlands, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að eftir að tilmæli bárust frá írsku ríkisstjórninni og sjávarútvegsfyrirtækjum á suðvestur Írlandi hefði rússneski varnarmálaráðherrann, Sergeij Shoigu, ákveðið að sýna þá vinsemd að færa svæðið þar sem rússneski flotinn ætlar að æfa 3. til 8. febrúar út fyrir írsku efnahagslögsöguna í þeim tilgangi að trufla ekki veiðar írskra skipa á hefðbundnum miðum þeirra.

Írska ríkisútvarpið, RTE, segir 30. janúar að Simon Coveney, utanríkisráðherra Íra, hafi áður hvatt Rússa til að færa æfingasvæðið og írska stjórnin telji „þakkarvert“ ef skipin haldi sig utan írsku efnahagslögsögunnar.

„Við höfum verið í miklu sambandi við rússneska sendiráðið í vikunni og við ákváðum að skrifa til rússneska varnarmálaráðuneytisins og óska eftir að kannað yrði hvort ekki væri unnt að færa eða fresta heræfingunum í írsku efnahagslögsögunni,“ sagði Simon Coveney að kvöldi laugardags 29. janúar.

Ráðherrann sagði að Írar væru reiðubúnir að mæla með því að fundin yrði málamiðlun til að koma í veg fyrir stríð milli Rússa og Úkraínumanna. Hætta væri á að stríð milli þjóðanna yrði mesta landorrusta í Evrópu frá síðari heimsstyrjöldinni. Ráðherrann sagði:

„Það er auðvitað miklu meira í húfi þegar litið er til Úkraínu. Við komum þar að málum eins og öll Evrópuríki og reynum að finna leið til að leysa úr ágreiningi á diplómatískan hátt og með pólitískum viðræðum frekar en stríði. Í fyrsta lagi yrði mannfall ákaflega mikið í allsherjar landhernaði en ég held einnig að pólitísk og almenn samskipti milli Evrópusambandsins og Rússa myndu skaðast illa af þessum sökum, að það gerist viljum við alls ekki.

Við beinum athygli að diplómatískri lausn, að viðræðum, en ég tel að þetta írska mál, megi nota þau orð um rússneskar heræfingar í efnahagslögsögu okkar, hafi nú verið fært á hliðarlínuna sem er gott.“

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …