Home / Fréttir / Rússar fljúga í veg fyrir norska P-8 eftirlitsflugvél

Rússar fljúga í veg fyrir norska P-8 eftirlitsflugvél

Norsk P-8-vél.

Rússneskum MiG-orrustuþotum var nú í vikunni í fyrsta sinn flogið fyrir norska P-8-kafbátaleitarvél yfir Barentshafi. Rússneska varnarmálaráðuneytið gaf þá skýringu að eftirlitsvélin hefði „nálgast landamæri Rússneska sambandsríkisins“.

Norski flugherinn fékk fyrstu P-8 Poseidon vélina til eftirlits á hafi úti 24. febrúar 2022. Ber hún nafnið Viking. Norðmenn hafa alls keypt fimm slíkar vélar og koma þær í stað P-3 Orion kafbátaleitarvélanna. P-8-vélar eru tíðir gestir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

Frétt um fyrsta fyrirflug Rússa vegna norsku P-8-vélanna birtist á norsku vefsíðunni Barents Observer föstudaginn 14. apríl 2023. Vélar af gerðinni MiG-31 voru sendar í veg fyrir norsku eftirlitsvélina og komu Rússarnir frá flugherstöð á Kólaskaga, fyrir austan norsku landamærin í norðri.

Í tilkynningu rússneska ráðuneytisins er tekið fram að norska vélin hafi ekki rofið rússneska lofthelgi og hafi MiG-31-vélunum verið snúið til baka.

Rússneski Norðurflotinn er nú við æfingar með þátttöku orrustuþotna, kafbátaleitarvéla og herskipa. Upplýsingadeild flotans í Severomorsk segir að um 1800 manns, 40 flugvélar og 15 skip taki þátt í æfingunni.

Hluti æfinganna snýst um að kafbátaleitarflugvélar Norðurflotans leita að „óvinakafbáti“ við Kólaskaga. Tóku bæði þyrlur af K-27 gerð og stórar Tu-142-eftirlitsflugvélar þátt í æfingunni.

 

Heimild: Barents Observer.

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …