Home / Fréttir / Rússar fagna úrslitum í forsetakosningum í Búlgaríu og Moldavíu

Rússar fagna úrslitum í forsetakosningum í Búlgaríu og Moldavíu

 

 

Ruman Radev, forseti Búlgaríu.
Ruman Radev, forseti Búlgaríu.

Forsetakosningar voru í fátækasta ríki Evrópu, Moldavíu, og fátækasta ríki Evrópusambandsins, Búlgaríu, sunnudaginn 13. nóvember. Í báðum löndum hlutu frambjóðendur hallir undir Rússa flest atkvæði.

Ruman Radev hershöfðingi, fyrrverandi yfirmaður í búlgarska flughernum, naut stuðnings sósíalista í Búlgaríu.  Hann vill falla frá viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum. Radev vann góðan sigur á Tsetska Tsacheva, frambjóðanda mið-hægrimanna, fékk 59% gegn 36%. Boyko Borisov forsætisráðherra sagði af sér eftir að frambjóðandi hans tapaði.

Igor Dodon, öflugur vinur Rússa, sigraði í Moldavíu. Hann hefur hótað að slíta samstarfssamningi við ESB og gera þess í stað viðskiptasamning við Rússa. Í seinni umferð forsetakosninganna fékk Dodon 52% en Maia Sandu, andstæðingur hans og stuðningskona ESB, fékk 48%.

Forsetar beggja landa hafa formleg en ekki efnisleg völd. Rússar gleðjast engu að síður yfir úrslitunum og líta á þau sem mikilvægan stuðning við meginsjónarmið rússneskrar utanríkisstefnu eða ímynd Rússlands.

Í Búlgaríu og Moldavíu treysta menn á orku frá Rússlandi. Viðskiptatengsl milli landanna hafa ekki rofnað þrátt fyrir viðskiptabannið. Rússar settu að vísu bann við innflutningi á víni og öðrum landbúnaðarafurðum frá Moldavíu eftir að samstarfssamningurinn var gerður við ESB árið 2014.

Rússneska Interfax-fréttastofan birti mánudaginn 14. nóvember ummæli höfð eftir Konstantin Kosastsjov, formanni utanríkismálanefndar efri deildar rússneska þingsins, um að frjálslynda Atlantshafs-kerfið sem virtist svo valdamikið hefði bæði brugðist Búlgörum og Moldóvum.

Rússneska utanríkisráðuneytið sagði of snemmt að kalla forsetana „pró-rússneska“ en það teldi víst að Móldóvar mundu styrkja hlutleysi sitt þegar nýr forseti tæki við embætti.

Sérfræðingar segja að fyrst og síðast beri að meta úrslit kosninganna í ljósi stöðunnar á heimavelli í löndunum en ekki sem höfnun á ESB í þágu Rússa.

Leonid Gusev við Institute of International Studies at the Moscow Institute of International Relations segir að nýju forsetunum muni ekki takast að sameina þjóðirnar nema þeir finni hæfilegt jafnvægi á milli austurs og vesturs. Einkum í Búlgaríu sem sé bæði í NATO og ESB. Ruman Radev hafi sagt í kosningabaráttu sinni að Búlgarar ættu að vera áfram í þessum tveimur bandalögum.

Gusev segir að ætli Igor Dodon að slíta samstarfssamningnum við ESB muni hann mæta mikilli andstöðu vegna þess að þá verði að nýju krafist vegabréfsáritana af Moldóvum sem vilja ferðast til EES-landa.

Dodon sagði við rússneska ríkismiðla mánudaginn 14. nóvember að túlka bæri sigur hans sem stuðning við nánari samskipti við Rússa og við að leyst verði úr ágreiningi vegna aðskilnaðarhéraðsins Transistria frá Moldóvu sem vill verða hluti Rússland en þangað hafa þúsundir rússneskra hermanna verið fluttir.

Í aðskilnaðarátökunum árið 1992 féllu um 1.500 manns í bardögum milli aðskilnaðarsinna í Transnistriu og stjórnarhers Moldavíu.

Heimild: VOA

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …