Home / Fréttir / Rússar fagna forskoti vegna hátækni skriðdreka – kapphlaup að hefjast

Rússar fagna forskoti vegna hátækni skriðdreka – kapphlaup að hefjast

 

Armata T-14 skriðdrekinn
Armata T-14 skriðdrekinn

 

Rússar telja sig hafa náð miklu forskoti gagnvart ESB-ríkjum með nýja Armata-skriðdreka sínum og mánudaginn 25. maí birti rússneska TASS-fréttastofan ummæli sem Dmitrí Rogozin, varaforsætisráðherra Rússlands, lét falla í rússneska sjónvarpinu kvöldið áður um að Evrópuríki stæðu ekki jafnfætis Rússum í þessu efni fyrr en eftir 15 ár.

„Frakkar og Þjóðverjar segja að árið 2030 muni þeir hafa smíðað skriðdreka sem jafnast á við Armata, það er eftir 15 ár,“ sagði Rogozin. „Frá því að T-34 kom til sögunnar hafa Rússar haft forskot í skriðdrekasmíði.“

Í frétt TASS segir að í Welt Online í Þýskalandi hafi föstudaginn 22. maí sagt frá því að þýska varnarmálaráðuneytið undirbúi með frönsku ríkisstjórninni áætlun um smíði á skriðdreka sem geti orðið keppinautur T-14 Armata-skriðdrekans rússneska þegar fram líða stundir.

Nýi þýsk-franski bryndrekinn á að verða tilbúinn 2030 og koma í stað Leopard 2 skriðdrekans sem nú er notaður af evrópskum herjum. Segir þýska blaðið að ákvörðun um smíði nýja skriðdrekans megi líklega rekja til hættumats frá þýsku leyniþjónustunni (BND) sem taki meðal annars mið af Armata-skriðrekanum sem var sýndur á hersýningu í Moskvu hinn 9. maí þegar fagnað var sigri Rússa í síðari heimsstyrjöldinni.

BND bendir á að skriðdrekarnir sem sýndir voru í Moskvu hafi aðeins verið sýningargripir og fjöldaframleiðsla hefjist fyrst eftir nokkur ár. „Þegar þeir koma fullbúnir til sögunnar standa menn frammi fyrir hágæða skriðdreka,“ segir í þýska blaðinu.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …