
Upplýsingaþjónusta rússneska Norðurflotans tilkynnti að kvöldi miðvikudags 7. ágúst að ákveðið hefði verið að flytja skotpalla fyrir flaugar sem NATO kallar SSC-3 eða Styx frá fastri stöð þeirra út á Srendníj-skaga við strönd Barentshafs.
Skaginn er ekki langt frá rússneska hafnarbænum Petsamó sem áður var finnsk hafnarborg.
Thomas Nilsen, ritstjóri vefsíðunnar Barents Observer, segir þar fimmtudaginn 8. ágúst að á björtum degi megi sjá strönd Srendníj-skaga frá Vardø, norskum bæ þar sem leyniþjónusta norska hersins starfrækir Globus-ratsjárkerfið. Ratsjárnar tvær hafa löngum verið þyrnir í augum Rússa.
Maria Zakharova, upplýsingafulltrúi rússneska utanríkisráðuneytisins, sagði afdráttarlaust í maí 2019 að Rússar mundu grípa til gagnaðgerða vegna endurnýjunar ratsjárkerfisins í Vardø. Að henni er unnið um þessar mundir.

Sredníj-skagi er 35 km frá Grense Jakobselv, lítilli landamæraá milli Noregs og Rússlands. Þá eru 65 km frá Kirkenes í Noregi að skotpöllunum.
Styx, Bal á rússnesku, er hreyfanlegt strand-stýriflaugakerfi sem tekið var í notkun árið 2004. Kerfið hefur verið endurnýjað síðan. Í hverri einingu kerfisins eru fjórir hreyfanlegir skotpallar með átta flaugar hver eða samtals 32 flaugar og hver flaug með 145 kg sprengju. Unnt er að endurhlaða skotpallana. Kerfið er hannað til árása á skip en flaugunum má einnig beina gegn skotmörkum á landi.
Í tilkynningu Norðurflotans segir að fyrstu flaugunum verði skotið frá nýjum stað í haustæfingum flotans.
Flotinn kynnti flutning skotflaugakerfisins á stað handan fjarðarins við ratsjárnar á Vardø tveimur dögum eftir að boðaðar voru skotæfingar Norðurflotans á fjórum afmörkuðum svæðum í Noregshafi undan ströndum fylkjanna Nordland og Troms.