Home / Fréttir / Rússar fá nýja stýriflauga-korvettu

Rússar fá nýja stýriflauga-korvettu

Nýja rússneska korvettan Gremjastjii.
Nýja rússneska korvettan Gremjastjii.

Ný rússnesk korvetta, 104 m á lengd, siglir frá rússnesku hólmlendunni Kaliningrad fyrir botni Eystrasalts þriðjudaginn 5. nóvember norður með strönd Noregs í Barentshaf. Vladimir Pútin Rússlandsforseti heimsótti skipasmiðjuna í fyrri viku.

Korvetta er minna herskip en freígáta. Um borð í korvettunni Gremjastjii verða stýriflaugar af Kalibr-gerð.

Á norsku vefsíðunni Barents Observer segir mánudaginn 4. nóvember að líklegt sé að gerðar verði ítarlegar tilraunir með flaugina eftir að skipið kemur inn á Barentshaf. Sú gerð flauganna sem smíðuð er til að vopna skip er sérhönnuð til árása á herskip, kafbáta og skotmörk á landi. Flaugunum var skotið á Sýrland árið 2015 frá herskipum á Kaspíahafi og kafbátum í Miðjarðarhafi. Flaugin er hljóðfrá þegat hún nálgast skotmark sitt.

Síðla árs 2018 var tveimur Kalibr-flaugum skotið í tilraunaskyni frá freigátunni Admiral Gorshkov. Freigátan var þá á flotaæfingasvæði norður af Kóla-skaganum.

Gremjastjii er fyrsta skip sem smíðað er undir Verkefni 20385. Skipið má nota til að senda liðsafla til landgöngu auk annarra verkefna á strandsvæðum. Rússar eiga nú sex skip sem voru smíðuð undir Verkefni 20380. Þau eru náskyld nýja skipinu.

Smíði nýja skipsins er 94,5% lokið og verður það formlega afhent rússneska flotanum 25. desember 2019. Skipið mun til frambúðar þjóna í rússneska Kyrrahafsflotanum.

Korvettan var smíðuð í Severníj-stöðinni í St. Pétursborg og hefur verið siglt í tilraunaskyni á Eystrasalti síðan í maí 2019. Hámarkshraði hennar er 27 hnútar, um borð er 99 manna áhöfn og úthald við aðgerðir á hafi úti án aðstoðar annarra er allt að 15 dögum.

 

Heimild: Barents Observer

Skoða einnig

Zelenskíj segir Bakhmut ekki á valdi Rússa

  Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseti sagði síðdegis sunnudaginn 21. maí að hermenn Rússneska sambandsríkisins hefðu ekki …