Home / Fréttir / Rússar fá covid-bólusetningu í Serbíu

Rússar fá covid-bólusetningu í Serbíu

Myndin sýnir rússneskan viðskiptavin koma út af Pfizer-bólusetningarstöð í Belgrad.

Krónuveirufaraldurinn herjar nú harkalega á Rússa og laugardaginn 16. október féllu í fyrsta sinn meira en 1.000 manns í valinn vegna hans á einum degi. Rússar leita í vaxandi mæli til Serbíu til að fá bóluefni sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar. Rússneska bóluefnið sem kynnt var fyrir rúmu ári er til heimabrúks en er ekki viðurkennt á Vesturlöndum.

Rússnesk yfirvöld með Vladimír Pútin forseta í fararbroddi fóru mikinn í ágúst 2020 þegar þau kynntu til sögunnar bóluefnið Sputnik V fyrir heiminum. V stendur fyrir Victory ­– sigur ­– til áréttingar á því að Rússar hefðu sigrað í kapphlaupinu um bóluefni gegn kórónuveirunni og eignast fyrsta skráða bóluefnið. Alþjóðleg heilbrigðisyfirvöld hafa þó ekki enn viðurkennt gildi bóluefnisins.

Vilji Rússar nálgast bóluefni sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fara þeir gjarnan fyrst til Serbíu áður en ferðinni er heitið til landa þar sem krafist er bólusetningar með alþjóðlega viðurkenndum efnum.

Serbía er utan ESB og samstarfsríki Rússa sem geta ferðast þangað án vegabréfsáritunar. Þar er unnt að panta bólusetningu og velja á milli ólíkra vestrænna bóluefna. Skipulögðum ferðum Rússa til Belgrad hefur fjölgað mikið og þeir sjást víða á hótelum, veitingarstöðum og bólusetningarstöðvum.

Rússneskar ferðaskrifstofur tóku að bjóða skipulagðar bólusetningarferðir um miðjan september 2021 og eru þær kynntar á þann veg að í þeim geti þátttakendur fengið bóluefni sem viðurkennt er af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO). Grunnverð ferðanna er 300 til 700 dollarar (39.500 til 92.000 ísl. kr.) eftir því hvað er innifalið í því.

Sputnik V nýtur viðurkenningar sem bóluefni í um 70 löndum, þar á meðal Serbíu. Innan WHO hafa menn glímt við margvíslegar hindranir þegar unnið hefur verið að því að skrá rússneska bóluefnið, þar á meðal skort á nægilega góðum vísindalegum upplýsingum. Þá hafa framleiðslustaðir bóluefnisins ekki sætt nauðsynlegu eftirliti.

Lyfjastofnun Evrópu hefur ekki samþykkt Sputnik V. Takmarkar það ferðafrelsi fólks sem hefur verið bólusett með efninu.

Allt hefur þetta valdið mörgum Rússum erfiðleikum og þegar WHO tilkynnti í september að enn yrði töf á viðurkenningu stofnunarinnar tóku Rússar að leita annarra ráða og ferðir voru skipulagðar til Serbíu.

Í Serbíu eru bóluefnin Pfizer, AstraZeneca og kínverska efnið Sinopharm í boði. Rússneskar ferðaskrifstofur bjóða einnig ferðir til Króatíu vegna mikillar eftirspurnar en þar er unnt að nálgast bóluefni Johnson & Johnson, ein sprauta af því er talinn duga.

Serbar tóku að bjóða útlendingum bólusetningar í ágúst 2021 þegar sýnt þótti að um 50% íbúa landsins hefðu verið bólusettir. Opinberar serbneskar tölur sýna að á vikunum sem síðan eru liðnar hafa tæplega 160.000 erlendir ríkisborgarar verið bólusettir í landinu. Óljóst er hve margir þeirra eru Rússar.

Áhugi Rússa á bólusetningu hefur verið lítill á heimaslóðum. Nú í vikunni höfðu 33% af 146 milljónum íbúa Rússlands fengið að minnsta kosti eina sprautu gegn kórónuveirunni og 29% voru fullbólusettir.

Undanfarið hefur útbreiðsla COVID-19 aukist jafnt og þétt í Rússlandi og dauðsföllum fjölga. Föstudaginn 15. október höfðu meira en 900 látist á dag í þrjá daga í röð og laugardaginn 16. október fór tala látinna yfir 1.000 í fyrsta sinn síðan faraldurinn hófst.

Alls hafa 220.000 manns látist vegna COVID-19 í Rússlandi, fleiri en í nokkru öðru Evrópulandi. Alls smituðust um 33.000 manns laugardaginn 16. október.

Serbar glíma einnig við vaxandi útbreiðslu COVID-19. Nú er mannfall um 50 á dag hjá sjö milljón manna þjóð og til þessa hafa um ein milljón smit verið skráð í landinu.

 

Heimild: Euronews

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …