Home / Fréttir / Rússar endurskipuleggja herafla sinn í norðri

Rússar endurskipuleggja herafla sinn í norðri

Sergeij Shoigu varnarmálaráðherra.

Nýjar herstöðvar koma til sögunnar í vesturhéruðunum sagði Sergeij Shoigu, varnarmálaráðherra Rússa, á fundi með æðstu herforingjum og Vladimir Pútin Rússlandsforseta miðvikudaginn 21. desember.

„Með hliðsjón af því að NATO hefur áhuga á að efla hernaðarmátt skammt frá landamærum Rússlands samhliða því að Norður-Atlantshafsbandalagið stækkar á kostnað Finna og Svía eru gagnaðgerðir nauðsynlegar til að um verði að ræða hæfilegan herstyrk í Norðvestur-Rússlandi,“ sagði ráðherrann.

Frá þessu er skýrt á norsku vefsíðunni Barents Obsever 21. desember. Minnt er á að þar hafi áður birst fréttir um að þúsundir hermanna frá Kólaskaganum hafi verið sendir á vígvellina í Úkraínu og hundruð þeirra fallið í átökum þar. Einkum hafi mannfall orðið mikið í 200. vélastórfylki Norðurflotans á fyrstu vikum átakanna veturinn 2022.

Shoigu sagði að stórdeild landhersins yrði í Karelíu. Þar fyrir norðan við Petsamó yrði 200. vélastórfylkið og 80. vélastórfylkið yrði í Alakurtti, bæði þessi stórfylki yrðu hluti vélaherdeildar. Slíkar herdeildir verða einnig skipulagðar á vestur, mið og austur herstjórnarsvæðunum að sögn ráðherrans.

Stórfylkin tvö nr. 200 og nr. 80 á Kólaskaga eru innan herstjórnarsvæðis Norðurflotans sem landfræðilega nær til norðvestur héraðanna og stranda Norðurleiðarinnar, siglingaleiðarinnar fyrir norðan Rússland.

Shoigu sagði að strandsveitir flotans mundu ásamt flota-stórfylkjum mynda fimm herdeildir stórdeildar flotans. Á Petsamó-svæðinu við landamæri Noregs og Finnlands er 61. stórfylki fótgönguliða flotans, hermenn úr því hafa bæði barist í Sýrlandi og Úkraínu.

Varnarmálaráðherrann sagði að „sérstöku hernaðaraðgerðinniª í Úkraínu yrði fram haldið „þar til verkefninu lýkur“ eins og hann orðaði það.

Hann vék að mikilvægi þjálfunar og æfinga. Sérstök áhersla verður að sögn ráðherrans lögð á að bregðast við „ógnum sem tengjast frekari stækkun NATO til austurs“.

Stærsta heræfingin verður Zapad-2023. (Vestur-2023).

Þá boðaði Shoigu að fjölgað yrði í rússneska hernum úr rúmlega 1 milljón núna í 1,5 milljónir manna og Pútin forseti sagði að ekki yrði „sett neitt þak“ á fjárveitingar til hersins.

„Þjóðin, ríkisstjórnin veitir hernum allt sem hann óskar, allt. Ég vona að svarið verði samið á viðunandi hátt og árangurinn í samræmi við það,“ sagði forsetinn.

Pútin viðurkenndi að takmarkaða herútkallið 21. september 2022 hefði leitt í ljós ýmis vandræði en fullyrti að á þeim hefði verið tekið. Þetta sneri samskiptum sveitar- og héraðsstjórna og vopnabúnaði þeirra sem kallaðir eru í herinn.

Í rússneskri útgáfu Barents Observer var nýlega sagt frá hermanni sem sendur var á vígvöllinn. Hann sagði að sig hefði skort allt: mat, einkennisföt, vopn, fjarskiptabúnað og baráttuþrek.

Í lok ræðu sinnar þakkaði Vladimir Pútin almennum borgurum fyrir að leggja hernum lið með tækjum, hlýjum fötum og gjöfum til hermanna í fremstu víglínu.

Rússnesk yfirvöld segja að 5.937 hermenn hafi fallið í Úkraínu. Á Vesturlöndum telja menn að fallnir rússneskir hermenn séu um 100.000

 

 

 

Skoða einnig

Döpur og dauf ræða „nýs“ Trumps á flokksþingi

„Nýi Donald Trump róaði og þaggaði niður í þjóðinni í 28 mínútur í gærkvöldi. Síðan …