Home / Fréttir / Rússar endurreisa vopnabúr í Kaliningrad – hugsanlega fyrir kjarnorkuvopn

Rússar endurreisa vopnabúr í Kaliningrad – hugsanlega fyrir kjarnorkuvopn

Hans Kristensen
Hans Kristensen

Nýbirtar gervitunglamyndir gefa til kynna að Rússar hafi endurreist mikilvægt vopnabúr í Kaliningrad, hólmlendunni við Eystrasalt, milli Póllands og Litháens. Myndirnar þykja gefa til kynna að rússneska stjórnin ætli að geyma kjarnorkuvopn á þessum stað að sögn sérfræðinga. Það var félagið Federation of American Scientists, Samband bandarískra vísindamanna, sem birti myndirnar mánudaginn 18. júní.

Hans Kristensen, virtur kjarnorkufræðingur og forstöðumaður upplýsingamála um kjarnorku hjá félaginu segir myndirnar sýna vopnabúr um 50 km frá pólsku landamærunum. Unnið hefur verið að endurgerð þess síðan árið 2016.

„Svo ég viti er þetta eina kjarnorkuvopnageymslan á Kaliningrad-svæðinu. Nýjasta uppfærslan vekur spurningar um hve mikið staðurinn nýtist í aðgerðum. Ekki er unnt að ráða í það endanlega með gervihnattarmyndavélum,“ sagði Kristensen.

Hann segir að yfirlýst stefna Rússa sé að skammdræg vopnakerfi, það er einkum vopn til notkunar á vígvellinum, séu geymd miðlægt innan Rússlands. Endurnýjun geymslunnar í Kulikovo í Kaliningrad kunni að fela í sér að þar verði unnt að taka á móti slíkum sprengioddum á hættustundu.

Kristensen sagði óljóst hvort kjarnorkuvopn hefðu verið flutt nú þegar í geymsluna eða hvort Rússar hefðu hafið undirbúning að flutningi þeirra þangað. Sérfræðingar telja að það auki mjög spennu í samskiptunum við NATO. Hitt væri einnig hugsanlegt að geymslan væri endurnýjuð til að þangað mætti flytja vopn með skömmum fyrirvara.

Með skammdrægum kjarnorkuvopnum í Kaliningrad má ógna Varsjá og hugsanlega einnig Berlín.

Undir lok janúar 2018 sagði aðalstjórnandi flugskeyta á Kaliningrad-svæðinu, Anatolíj Gorodetskíj ofursti, að verkfræðingar hefðu lokið við að reisa þar nauðsynleg mannvirki fyrir háþróaðar Iskander-M flaugar. Nokkrum dögum tók Vladimir Shamanov, fyrrverandi herforingi, núverandi formaður varnarmálanefndar neðri deildar rússneska þingsins, undir þetta og sagði að Iskander-M kerfið væri komið á sinn stað. Varnarmálaráðherra Litháens staðfesti þetta einnig.

Talsmenn Bandaríkjanna og NATO segja að þessi staðsetning á vopnunum grafi undan stöðugleika.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …