Home / Fréttir / Rússar enduropna herstöð á Franz Josef landi

Rússar enduropna herstöð á Franz Josef landi

 

Franz Josef land
Franz Josef land

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir að risavaxin herstöð á Alexöndru-landi  sé nærri fullbúin. Alexöndru-land er hluti af Franz Josef landi, eyjaklasa sem teygir sig úr Norður-Íshafi í Barentshaf og Karahaf. Þar er 191 eyja á 16.134 ferkílómetra svæði. Klasinn er aðeins setinn rússneska hernum en líklegt er talið að þar megi finna olíu og gas,

Um er að ræða stöð sem nefnd er Þriggja blaða íshafssmárinn. Þetta er þríhyrnd þyrping húsa. Þau eru rauð, hvít og blá eins og rússneski fáninn. Stöðin er á 80°norður og spannar yfir 14.000 fermetra.

Stöðin er liður í hernaðarframkvæmdum Rússa í Norður-Íshafi í samræmi við nýju flotastefnuna þar sem svæðið er sett í algjöran forgang vegna náttúruauðlinda og strategísks mikilvægis.

Rússar hafa þegar reist svipaða herstöð, Norður-músasmárann, á Kotelníj-eyju í Austur-Síberíuhafi sem er sunnar eða á 75°norður.

Í nýju Þriggja blaða íshafssmára stöðinni er rými fyrir 150 hermenn, eldsneyti og vistir sem gerir þeim kleift að hafa þar 18 mánaða viðveru án aðstoðar annarra.

Innangegnt er milli bygginga í stöðinni. Frostið getur farið niður í 47°C.  Vegir hafa verið lagðir og þarna eru eldneytisgeymar.

Vladimir Korolyov, yfirmaður rússneska Norðurflotans, sagði þriðjudaginn 20. október að enginn hefði áður ráðist í svipaðar framkvæmdir svo norðarlega. Á nyrsta hluta Rússlands væru menn á stöðugri vakt við loftvarnakerfi og gætu gert það sem fyrir þá væri lagt,

Rússar hafa haldið úti landamæragæslu á Franz Josef landi en á tíunda áratugnum var allur herafli kallaður þaðan. Hann sneri til baka í nóvember 2014 þegar loftvarnasveitir úr Norðurflotanum voru sendar þangað.

Í ár hafa Rússar að nýju opnað flugbraut á Alexöndru-eyju fyrir stórar flugvélar sem flutt hafa byggingarefni þangað.

Rússar hafa áform um að leggja 13 flugbrautir og  reisa sex herbækistöðvar á og við Norður-Íshaf. Á fyrri helmingi þessa árs voru 57.700 tonn af byggingarefni flutt á þessar slóðir.

Heimildir: RFE/RL , AFP og TASS

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …