
Rússar hafa kynnt áform um að endurnýja flugherstöð á Kólaskaga sem þeir yfirgáfu fyrir 25 árum. Um er að ræða Severomorsk-2-stöðina sem fellur undir forræði Norðurflotans. Flugbrautin, 1.800 metra löng, er illa farin eins og sjá má á gervitunglamyndum í Google Earth. Öllum lauslegum tækjabúnaði var stolið úr stöðinni og af vellinum eftir að starfsemi þar var hætt 1998.
Á norsku vefsíðunni BarentsObserver segir að undanfarin ár hafi flugvöllurinn verið notaður fyrir lítil ómönnuð flugför (dróna) á vegum Norðurflotans. Höfuðstöðvar flotans eru í bænum Severomorsk, sjö km fyrir norðaustan flugvöllinn. Frá vellinum eru 11 km til Múrmansk.
Aleksandr Moiseev, flotaforingi, yfirmaður Norðurflotans, kynnti endurnýjun Severomorsk-2 í framkvæmdaáætlun um endurgerð eða lagningu nýrra rússneskra herflugvalla Rússa á norðurslóðum til ársins 2030.
Ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um hvernig flugvélar verða á endurgerða Severomorsk-2-vellinum.
Nú rekur Norðurflotinn tværi stórar flugherstöðvar á Kólaskaga, Severomorsk-1 og Severomorsk-3.
Severomorsk-1 er skammt frá samnefndum bæ en flugbrautin þar er 3.500 m löng. Þar er heimavöllur flotaeftirlitsvéla (Il-38) og þyrlna til kafbátaleitar (Ka-27).
Severomorsk-3 er heimavöllur orrustuþotna Norðurflotans, hann er 28 km fyrir austan Múrmansk.
Þá eru enn tvær flugherstöðvar á Kólaskaganum, Olenja skammt frá Olenogorsk, heimavöllur langdrægu Tu-22 sprengjuvélanna, og Monstjegorsk með orrustuþotum.