Home / Fréttir / Rússar eiga meira undir kjarnavopnum vegna Úkraínustríðsins

Rússar eiga meira undir kjarnavopnum vegna Úkraínustríðsins

Stríðið í Úkraínu hefur dregið úr trú rússneskra stjórnvalda á getu hefðbundins herafla síns og aukið mikilvægi skamm- og meðaldrægra kjarnorkuvopna í þeirra augum að sögn Alþjóðahermálastofnunarinnar í London, International Institute for Strategic Studies (IISS). Á ensku eru þessi vopn kölluð non-strategic nuclear weapons (NSNWs).

Mat IISS á þróun hernaðarlegra málefna og strategíu er mikils metið á Vesturlöndum. Í skýrslu stofnunarinnar sem birt var mánudaginn 22. janúar segir að NSNW-kjarnavopnin kunni að verða það sem rússneskir ráðamenn treysti á í framtíðinni til að sigra heri NATO-ríkjanna í hugsanlegum átökum.

Undir NSNW-vopn falla öll kjarnavopn sem skjóta má á skotmörk í allt að 5.500 km fjarlægð. Fyrst koma vígvallarvopnin (e. tactical weapons) og síðan stig af stigi – þau kjarnavopn sem ekki falla undir hugtakið eru langdrægari strategísk kjarnavopn sem Rússar og Bandaríkjamenn mundu beita til að granda hvor öðrum.

Í skýrslunni er því hreyft að það kunni að ýta undir trú Rússa á gildi þess að beita NSNW-vopnum að þeir telji vestræn ríki skorta áræði til að grípa til kjarnavopna.

„Það mat Rússa að ekki sé fyrir hendi trúverðugur vestrænn vilji til að beita kjarnavopnum eða sætta sig við mannfall í átökum ýtir enn fremur undir rússneskar árásarhugmyndir við mótun stefnu um beitingu NSNW-vopna,“ segir í skýrslunni.

Þar kemur fram að rökin að baki stefnu um beitingu NSNW-vopnanna séu þau að þannig megi hafa stjórn á stigmögnun átaka „annaðhvort til að halda Bandaríkjunum og NATO frá átökum eða neyða óvininn til að ljúka stríðsátökum á forsendum Rússa“.

Ráðamenn í Moskvu hafna fullyrðingum um að þeir hóti með kjarnavopnum en frá því að stríðið í Úkraínu hófst hafa ýmis ummæli Vladimirs Pútins Rússlandsforseta verið túlkuð á þann veg á Vesturlöndum. Strax á fyrsta degi innrásar Rússa komst hann þannig að orði að hver sá sem reyndi að leggja stein í götu Rússa eða hótaði þeim skyldi varast „afleiðingar sem hann [hefði] aldrei kynnst í sögu sinni“

Ummæli í þessa veru hafa þó ekki komið í veg fyrir að Bandaríkjamenn og bandamenn í NATO hafi veitt Úkraínumönnum víðtæka hernaðarlega aðstoð, þar má nefna háþróuð vopnakerfi sem talið var óhugsandi að láta í té í upphafi átakanna.

Pútin hefur staðið af sér kröfur þeirra sem vilja að Rússar gangi fram af meiri hörku en gert hefur verið og breytt verði hernaðarstefnunni þar sem segir að beita megi kjarnavopnum komi til „árásar gegn Rússneska sambandsríkinu með hefðbundnum vopnum þegar sjálfri tilvist ríkisins er ógnað“. Pútin hefur hins vegar breytt afstöðu Rússa til lykilsamninga um kjarnavopn og sagt að hann hafi flutt vígvallarkjarnavopn til Belarús.

Vestrænir greinendur og stefnumótendur hafa rýnt af nákvæmni í allt sem rússneskir herfræðingar segja um hvort rússnesk stjórnvöld eigi að lækka þröskuldinn komi að því að ákveða beitingu kjarnavopna.

Í fyrra ræddi rússneski greinandinn Sergei Karaganov til dæmis um nauðsyn þess að hóta kjarnorkuárás á Evrópu til þess að hræða óvini Rússa og koma þeim „niður á jörðina“.

William Alberque, höfundur IISS-skýrslunnar, segir að skoða eigi ummæli Karaganovs í ljósi umræðna í Rússlandi um ástæðuna fyrir því að her landsins mistókst að sigra á afgerandi hátt í Úkraínustríðinu á skömmum tíma.

„Umræður þeirra sjálfra sýna að þeir óttast að þessi gangur stríðsins hafi hvatt okkur til frekari dáða og þess vegna ræða þeir nú um kjarnavopnin og segja „við verðum að gera eitthvað annað til að gera Bandaríkjamenn ofsahrædda“.“

Alberque sagði blaðamönnum að vestrænar leyniþjónustur myndu geta greint ýmis teikn sem bentu til þess að Rússar væru í raun að búa sig undir að nota NSNW-vopn.

Þetta mætti meðal annars sjá ef hafist yrði handa við að flytja vopn frá miðlægum vopnabúrum til flugherstöðva. Einnig ef ráðist yrði með hefðbundnum vopnum á svæði nærri fyrirhugðu skotmarki í því skyni að lama ratsjár- og gagneldflaugakerfi.

Við þær aðstæður hefði Pútin líklega verið fluttur í kjarnorkubyrgi og gefin hefðu verið fyrirmæli um hæsta hættustig til allra stjórn- og eftirlitsstöðva rússneska kjarnorkuheraflans vegna yfirvofandi gagnárásar Bandaríkjamanna með kjarnavopnum.

Alberque sagði einnig að stigu Rússar skref til beitingar kjarnavopna yrði að ákveða á æðstu stöðum hver væri „hæfilegur skammtur“ til að neyða andstæðinginn til að draga sig í hlé frekar en setja af stað hringekju stigmögnunar.

Hann sagði að það héldi vöku fyrir bandarískum áætlanasmiðum hvernig ætti að bregðast við ef Rússar færu inn á þessa braut. Alberque starfaði á sínum tíma í bandaríska varnarmálaráðuneytinu og hjá NATO. Hann sagði:

„Stigi hinn aðilinn yfir kjarnorkuþröskuldinn hvernig á þá að koma í veg fyrir að ferli stigmögnunar hefjist og átökin magnist stig af stigi til gjöreyðingar? Hvernig er unnt að setja þessu skorður, skrúfa þetta niður? Þetta er eitt erfiðasta vandamálið, þetta er vandamál sem glímt hefur við frá upphafi kjarnorkualdar.“

 

Heimild: Reuters, Mark Trevelyan.

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …