Home / Fréttir / Rússar eiga í stöðugu og líklega endalausu stríði við Bandaríkjamenn

Rússar eiga í stöðugu og líklega endalausu stríði við Bandaríkjamenn

Vladimnir Pútin og Valeríj Gerasimov.
Vladimnir Pútin og Valeríj Gerasimov.

Janusz Bugajski, fræðimaður við hugveituna Center for European Policy Analysis (CEPA) í Washington, D.C. skrifaði þessa grein sem birtist í The Hill í Washington 4. apríl.

 

Sé svo að einhver hafi verið í vafa þá hefur æðsti herforinginn í Moskvu áréttað að Rússar eigi í stöðugu stríði við Bandaríkjamenn.

Valeríj Gerasimov, yfirmaður rússneska herráðsins, flutti nýlega ræðu í Herfræðiakademíunni í Moskvu og sendi Bandaríkjamönnum þríþætta viðvörun. Hann víkkaði skilgreiningu rússneskra ráðamanna á stríði, hótaði með kjarnorkuvopnum og spann upp „fimmtu herdeildina“ sem hann sagði ætlað að grafa undan stöðugleika í Rússlandi með stuðningi Bandaríkjamanna. Gerasimov fetaði í sovésk spor þegar hann lýsti Bandaríkjamönnum sem höfuðóvinum Rússa og sagði engan meginmun á augljósum ófriði og torskildum friði.

Á friðartímum væri stríð einfaldlega háð án þess að beita vopnum með leynilegum áhrifum og upplýsingafölsunum – sumir kölluðu þetta fjölþættar eða ósamhverfar árásir.

Gerasimov sagði að rússnesk stjórnvöld ætluðu að herða stríð án hergagna gegn Bandaríkjunum á sama tíma og þeir byggju sig undir hernaðarleg átök með víðtækri uppbyggingu vígbúnaðar. Markmiðið er að veikja hnattræn ítök Bandaríkjamanna, raska starfsemi bandarískra bandalaga og auk rússnesk ítök.

Samhliða núverandi hernaðaruppbyggingu í Rússlandi er unnið að því að styrkja átkakamátt á öðrum sviðum, þar á meðal í netheimum, í efnahags- og upplýsingamála. Einkum er talið að „upplýsinga-víddin“ án augljósra landamæra milli þjóða sé til þess fallin að halda uppi stöðugum duldum árásum á Bandaríkin, þar á meðal á stjórnmálakerfið og almenningsálitið.

Þegar starfsmenn ráðamanna í Moskvu fá það verkefni að búa sig undir bandarísku forsetakosningarnar í nóvember 2020 miða þeir störf sín við að grafa undan frambjóðendum sem berjast fyrir hertum refsiaðgerðum og harkalegri viðbrögðum gegn ásókn Kremlverja. Það verður einnig lögð áhersla á að magna flokkadrætti, ýta undir óvild á grunni kynþátta og trúarbragða og veikja trú á „meginstrauma“-fjölmiðlum með því að planta fölskum upplýsingum.

Moskvumenn láta eins og aðgerðir þeirra séu andsvar við hertu upplýsingastríði af hálfu bandaríska varnarmálaráðuneytisins og CIA þrátt fyrir þá staðreynd að bandarískar stofnanir láta alfarið undir höfuð leggjast að beita sóknaraðferðum. Rússneskir embættismenn saka ráðamenn í Washington um að beita sér fyrir „lita-byltingum“ á aðskildum svæðum til að knýja fram stjórnarskipti og stækkun NATO.

Raunin er hins vegar sú að innan Kremlar eru menn vonsviknir vegna uppreisna gegn forræðisstjórnum í nágrannaríkjunum eins og Úkraínu, þeir hafa enga burði til að hemja aðdráttarafl NATO og ESB meðal fyrrverandi fylgiríkja sinna.

Gerasimov segir að að svar Moskvumanna verði að beita „forvirkri aftengingu“ á slíkum hótunum gegn nágrönnum Rússlands. Í þessum tilgangi kynnti hann „stefnu takmarkaðra aðgerða“ sem felst í því að gripið verður til hernaðaraðgerða utan rússnesku landamæranna með mjög hreyfanlegum herafla.

Þegar bandaríski hershöfðinginn Curtis Scaparrotti, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, sat fyrir svörum í öldungadeild Bandaríkjaþings 8. mars sagði hann að Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra yrðu að leggja meira á sig vegna hótana frá Rússum. Hann ræddi sérstaklega um mikilvægi nethernaðar til að verja lykil-innviði og tölvukerfi á sviði fjármála og flutninga. Scaparrotti staðfesti einnig að Moskvumenn beittu „heildar-samfélags“ hernaðaraðferð sem næði til pólitískra undirróðursmanna, upplýsingamiðlunar, efnahagslegra ögrana, netaðgerða, staðgengla, aðgerða sérsveita, hefðbundins herafla og kjarnorkuherafla.

Í nýlegri ræðu sinni lagði Gerasimov áherslu á mikilvægi þess að auka kjarnorkuherafla Rússa og þróa ný „ofurvopn“ eins og:

  • Samarat fjölodda langdrægu eldflaugina;
  • Avangard ofurhraða árásarvopn;
  • nýjar langdrægar flaugar sem skotið er á lofti;
  • fjarstýrð tundurskeyti með kjarnavopnum;
  • kjarnorkuknúnar langdrægar stýriflaugar og
  • ofurhraða flaugar sem rofið geta eldflaugavarnir Bandaríkjanna.

Brottfall ýmissa afvopnunarsamninga um kjarnavopn þar á meðal um meðaldrægu kjarnaflaugarnar (INF) vegna samningsbrota Rússa túlka Moskvumenn sem grænt ljós fyrir sig til kjarnorkuvæðingar.

Rússar hafa ekki fjárhagslega burði til að keppa við NATO á sviði venjulegra vopna og ætla þess vegna að beita kjarnavopnum í fyrstu atrennu, einkum á vígvellinum. Og vegna þess að Moskvumenn geta ekki sigrað Bandaríkjamenn í alhliða vopnakapphlaupi kunna þeir að treysta á að hótun í krafti kjarnorkuvopna verði til þess að Vestmenn dragi sig í hlé og leyfi þeim að hafa undirtökin á svæðum skammt frá landamærum Rússlands.

Í þriðja og lokaþætti viðvörunar sinnar veittist Gerasimov á Bandaríkjastjórn fyrir að beita rússneskum stjórnarandstöðuhópum til að velta stjórninni og rústa landinu. Þessi samsæriskenning er notuð til að beita rússneska hernum gegn andstæðingum heima fyrir og bandalagi Vesturlanda.

Fullyrt er að Bandaríkjamenn haldi úti „Trjóu-hestinum“, það er áformum um að virkja fimmtu herdeild til að grafa undan stöðugleika í Rússlandi og við réttar aðstæður verði beitt nákvæmum, marksæknum stýriflaugum til að eyðileggja miðstöðvar stjórnkerfisins.

Með hugarburði af þessu tagi fá Moskvumenn dýrmæta átyllu til að herða aðgerðir gegn stjórnarandstæðingum á heimavelli. Þeir eru sakaðir um að stunda moldvörpustarfsemi með bandarískum stuðningi.

Vladimir Pútin forseti verður sérstaklega hættulegur þegar stuðningur við hann minnkar meðal heimamanna, jafnvel opinberar kannanir sýna að svo sé, og þeir sem mynda elítu landsins fyllast efasemdum um forystuhæfni hans. Við slíkar aðstæður hefur hann þörf fyrir sigur utan landamæranna til að endurvekja traust og styrkja eigið lögmæti. Gripu Kremlverjar til þess ráðs að virkja rússneska heraflann í von um að sigra í keppni við NATO eiga þeir hins vegar á hættu að kalla efnahagshrun og ríkisupplausn yfir Rússa á borð við það sem sovéskum ráðamönnum tókst að afreka undir lok níunda áratugarins.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …