Home / Fréttir / Rússar efna í skyndi til víðtækrar flug- og loftvarnaæfingar

Rússar efna í skyndi til víðtækrar flug- og loftvarnaæfingar

 

Rússneskar loftvarnasveitir á æfingu.
Rússneskar loftvarnasveitir á æfingu.

 

Rússar hófu mikla fjögurra daga heræfingu mánudaginn 25. maí með um 250 flugvélum, 12.000 hermönnum og 700 vígtólum af ýmsum gerður. Rússneska varnarmálaráðuneytið lýsir æfingunni sem „víðtækri skyndiathugun“ á viðbragðsflýti heraflans.

BBC bendir á að æfingin hefjist sama dag og NATO-ríki og nokkur samstarfsríki þeirra hefji æfingar á norðurslóðum.

Rússnesku æfingar eru á mið-herstjórnarsvæði Rússlands og að sögn TASS-fréttastofunnar ná þær til flugherdeilda og loftvarnasveita. Ætlunin er að langdrægar sprengjuvélar Rússa æfi stýriflaugaárásir á æfinga-skotmörk í Komi-lýðveldinu.

Caroline Wyatt, fréttaritari BBC í Moskvu segir að æfingarnar nú séu aðdragandi að enn stærri æfingu, Center-2015, sem hefst í september.

Þegar Dmitríj Rogozin, vara-forsætisráðherra Rússlands, var í sjónvarpsviðtali spurður um djarflega framgöngu Rússa sagði hann brosandi: „Skriðdrekar þurfa enga vegabréfsáritun.“

Rogozin er á bannlista hjá ESB og Bandaríkjunum og fær ekki að ferðast þangað í refsiskyni fyrir innlimun Rússa á Krímskaga fyrir rúmu ári.

Í BBC er minnt á opna bréfið eða yfirlýsinguna sem varnarmálaráðherrar Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar auk utanríkisráðherra Íslands birtu hinn 10. apríl 2015 þar sem þeir vöruðu við hættunni af yfirgangi Rússa.

Heræfingin undir merkjum NATO sem hófst mánudaginn 25. maí verður stunduð til 5. júní frá Bodø í Noregi, Luleå í Svíþjóð og Rovaniemi í Finnlandi. Alls taka 115 flugvélar þátt í henni og 3.600 menn frá níu löndum.

Auk heimamanna í löndunum þremur verða flugvélar og þáttakendur í NATO-æfingunni einnig frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Hollandi – allt eru þetta NATO-ríki – einnig mun hið hlutlausa Sviss koma við sögu. Svipuð æfing fór fram árið 2013.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínustjórn fordæmir erlenda „eftlrlitsmenn“ rússneskra svikakosninga á hernumdum svæðum í Úkraínui

Úkraínsk stjórnvöld hafa harðlega gagnrýnt kosningarnar sem efnt var til undir stjórn Rússa á hernumdum …