Rússar ætla að efla kafbátaflota sinn með tveimur nýjum kjarnorkuknúnum „fimmtu-kynslóðar bátum“ sem nú ganga undir vinnuheitunum „flugmóðurskipa-eyðir“ og „neðansjávar-vörður“.
„Flugmóðurskipa-eyðirinn“ verður búinn stýriflaugum og honum á að beita gegn skotmörkum á landi og herskipum, einkum flugmóðurskipum, sagði Anatolij Shlemov, yfirmaður varnarmáladeildar Sameinuðu rússnesku skipasmiðjanna við Lenta.ru í síðustu viku.
„Neðansjávar-vörðurinn“ á að verða til varnar flokki kjarnorkuknúinna kafbáta með langdrægar eldfalugar og verður honum beitt gegn óvina-kafbátum.
Grunngerð bátanna verður hin sama en vopnabúnaður þeirra ólíkur, enda verkefni þeirra ólík.
Malakhit skipaverkfræðifyrirtækið vinnur að hönnun bátanna en smíði þeirra er hluti af 350 milljarða dollara áætlun um endurnýjun rússneska hersins. Markmiðið er að áætluninni ljúki árið 2020.
Viktor Tsjirkov flotaforingi segir að unnið sé að smíði þessara nýju kafbáta: „Við þurfum hljóðláta, hraðskreiða kafbáta sem erfitt er að finna og eru búnir öflugum vopnum,“ sagði hann við Sputnik-vefréttastofuna þriðjudaginn 7. júlí.
Nú eru 60 kafbátar í rússneska flotanum um 10 þeirra eru kjarnorkuknúnir og búnir langdrægum eldflaugum, rúmlega 30 eru fjölhæfir kjarnorkuknúnir bátar, hinir eru dísel-bátar og ætlaðir til sérstakra verkefna.
Árið 2020 er gert ráð fyrir að í rússneska flotanum verði alls átta nýir kafbátar af Borei-gerð og sjö nýir kjarnorkuknúnir árásarkafbátar af Yasen-gerð.